Enski boltinn

Sagðir hafa boðið yfir 100 milljónir í heimsmeistara

Valur Páll Eiríksson skrifar
Fernández fagnar heimsmeistaratitlinum ásamt Sergio Aguero.
Fernández fagnar heimsmeistaratitlinum ásamt Sergio Aguero. Chris Brunskill/Fantasista/Getty Images

Argentínska ungstirnið Enzo Fernández heillaði marga á leið Argentínu að heimsmeistaratitlinum í fótbolta í Katar. Félag hans, Benfica, mun berjast fyrir því að halda honum með kjafti og klóm.

Chelsea er sagt hafa boðið geigvænlega upphæð til að klófesta Fernández strax í janúar. Portúgalskir miðlar segja tilboð liðsins hljóða upp á 115 milljónir punda, tæplega 20 milljarða króna.

Fernández sneri aftur til Lissabon í gær og hóf æfingar á ný með Benfica. Hann sagður hafa þegar átt fundi með Manuel Rui Costa, forseta félagsins, sem er sagður reiðubúinn að beita öllum ráðum til að halda Fernández fram á sumarið.

Rui Costa er sagður vonast til að þátttaka Benfica í Meistaradeildinni eftir áramót og töluverðar líkur á portúgölskum meistaratitli dugi til að sannfæra Fernández um að gera hlé á brottfararáformum sínum.

Fernández er aðeins 21 árs gamall en spilaði stórt hlutverk hjá argentínska landsliðinu á HM. Hann var valinn besti ungi leikmaður mótsins.

Benfica er sagt hafa þegar hafnað tilboði upp á 88 milljónir punda í kappann en Liverpool og Newcastle eru sögð áhugasöm. Chelsea virðist hins vegar líklegast til að semja við Fernández, ef hann ákveður ekki að halda kyrru fyrir í Portúgal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×