Erlent

Sex skotnir til bana eftir um­sátur á af­skekktum bæ í Ástralíu

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Frá aðgerðum lögreglu í Chinchilla í gær.
Frá aðgerðum lögreglu í Chinchilla í gær. EPA

Sex manns, þar af tveir lögreglumenn, voru skotnir til bana á afskekktum bæ í Queensland í Ástralíu í gær.

Fjórir lögreglumenn voru kallaðir að húsinu sem er í Chinchilla, tæplega þrjú hundruð kílómetra fjarlægð frá borginni Brisbane en þeir voru að líta eftir manni sem saknað var.

Þegar lögreglumennirnir nálguðust húsið hófst skothríð og létu lögregluþjónarnir Matthew Arnold og Rachel McCrow lífið. Þriðji lögreglumaðurinn særðist lítillega og sá fjórði slapp heill á húfi.

Maður sem bjó í næsta húsi fór að grennslast fyrir um lætin og var sá einnig skotinn til bana.

Fleiri lögreglumenn bar síðan að garði og upphófst nokkurskonar umsátursástand sem stóð í nokkra klukkutíma.

Atburðurinn átti sér stað í Chinchilla, um þrjú hundruð kílómetra frá Brisbane.EPA

Að lokum voru hin grunuðu, maður og kona skotin til bana en einnig maðurinn sem lögregla leitaði að. Sá var 46 ára gamall skólastjóri sem ekkert hafði spurst til í nokkurn tíma. Fólkið á bænum var síðan bróðir skólastjórans og kona hans.

Bróðirinn hafði margsinnis komist í kast við lögin en hann var ákafur andstæðingur hinnar hörðu byssulöggjafar sem sett var í Ástralíu eftir fjöldamorð sem framin voru í Tasmaníu árið 1996.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×