Enski boltinn

Segir hættu­legt fyrir enska lands­liðið að missa Sout­hgate núna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gareth Southgate hughreystir Harry Maguire eftir að enska landsliðið datt úr leik á HM í Katar.
Gareth Southgate hughreystir Harry Maguire eftir að enska landsliðið datt úr leik á HM í Katar. Getty/Simon Bruty

Knattspyrnugoðsögnin Claude Makélélé, sem gerði góða hluti í ensku úrvalsdeildinni og með franska landsliðinu, segir að enska knattspyrnusambandið eigi að gera allt til þess að halda Gareth Southgate í stöðu landsliðsþjálfara.

Vonbrigðin voru mikil hjá enska landsliðinu að komast ekki upp úr átta liða úrslitunum á heimsmeistaramótinu í Katar eftir að hafa farið alla leið í úrslitaleik Evrópumótsins í fyrra.

Enska liðið var alls ekki verra liðið í leiknum á móti Frakklandi en varð að sætta sig við 2-1 tap.

„Að mínu mati þá eiga Englendingar alls ekki að láta hann fara miðað við það starf sem hann hefur skilað,“ sagði Claude Makélélé í samtali við Sky Sports.

„Hann hefur verið mjög nálægt því að skila titla og það yrði hættulegt fyrir enska landsliðið að missa Southgate núna. Það er samt bara mín skoðun,“ sagði Makélélé.

„Hann verður að halda áfram út af Evrópukeppninni og kannski líka HM í Ameríku. Ég er viss um að England vinnur annar titil,“ sagði Makélélé.

„Þeir eru mjög nálægt þessu, mjög nálægt,“ sagði Makélélé.

Makélélé varð í öðru sæti með franska landsliðinu á HM 2006 en hann varð franskur meistari með Nantes, spænskur meistari með Real Madrid og enskur meistari með Chelsea.

Gareth Southgate er sagður vera að íhuga framtíð sína en síðustu mánuðir hafa reynt mikið á hann en liðinu gekk ekki vel á milli EM og HM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×