Enski boltinn

Fagnaði með mömmu og West Ham stelpunum inn í klefa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dagný Brynjarsdóttir og Brynjar Atli fagna inn í klefa hér til vinstri en Dagný fagnar sjálf inn á vellinum til hægri.
Dagný Brynjarsdóttir og Brynjar Atli fagna inn í klefa hér til vinstri en Dagný fagnar sjálf inn á vellinum til hægri. Samsett/Instagram og Getty

Íslenska landsliðskonan Dagný Brynjarsdóttir og félagar hennar í West Ham unnu flottan 2-0 sigur á Tottenham í ensku úrvalsdeildinni um helgina.

Dagný fékk tækifæri til að koma West Ham yfir í fyrri hálfleik en klikkaði þá á víti. Dagný bætti fyrir það með því að koma West Ham 1-0 yfir í seinni hálfleiknum.

Þetta var fimmta deildarmark Dagnýjar á tímabilinu og hún deildir fimmta og sjötta sætinu á markalistanum með hinni áströlsku Sam Ker hjá Chelsea.

Sigurinn skipti West Ham miklu máli enda að mæta nágrönnum sínum í Tottenham og stigin skila liðinu upp í fimmta sæti deildarinnar, þremur stigum á undan Aston Villa.

Það var mikið sungið og trallað inn í klefa eins og sjá má á myndbandi sem var sett inn á samfélagsmiðla West Ham.

Þar má sjá Dagnýju með son sinn Brynjar Atla sem hafði greinilega mjög gaman af sigursöngvum stelpnanna eftir leik.

Dagný leyfir stráknum sínum að kynnast fótboltalífinu frá fyrstu hendi en hann hefur oft verið lukkustrákur og leitt mömmu sína inn á völlinn fyrir leiki.

Það er gaman að sjá Brynjar skælbrosandi í fangi móður sinnar og fáir skemmtu sér örugglega betur en hann.

Hér fyrir neðan má sjá þetta myndband.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×