Fótbolti

Fyrr­verandi lands­liðs­mark­vörður Eng­lands segir að Pick­ford hafi átt að gera betur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jordan Pickford var lengi að bregðast við skoti Aurélien Tchouaméni.
Jordan Pickford var lengi að bregðast við skoti Aurélien Tchouaméni. Jabin Botsford/Getty Images

Markvörðurinn fyrrverandi Ben Foster segir að Jordan Pickford, landsliðsmarkvörður Englands, hafi verið of lengi að bregðast við skoti Aurélien Tchouaméni í 2-1 sigri Frakklands á Englandi í 8-liða úrslitum HM í fótbolta.

Hinn 39 ára gamli Foster lék átta A-landsleiki fyrir England á sínum tíma ásamt því að leika fyrir Watford, Manchester United, West Bromwich Albion, Birmingham City og fleiri lið. Hann er virkur á samfélagsmiðlum og tjáði sig á TikTok um mark Tchouameni. 

Hann telur að Pickford hafi einfaldlega átt að gera betur og að flestir markverðir ensku úrvalsdeildarinnar hefðu varið þetta skot.

„Þetta var rúmlega 22-23 metra frá marki. [Jude] Bellingham er alveg upp við Tchouaméni þegar hann skýtur en skotið fer gegnum klofið á honum. Það á ekki að trufla Pickford, rétt? Það sem ég held að hafi gerst er að hann hafi verið aðeins of seinn að bregðast við, fótavinnan var of  hæg. Ég held ekki að hann hafi vanmetið flugið á boltanum.“

„Ég held að flestir markverðir í ensku úrvalsdeildinni hefðu varið þetta. Ég trúi því virkilega, flestir markverðir deildarinnar verji þetta skot. Punktur.“

„Skotið var engin negla og var ekki einu sinni alveg út við stöng. Ég held að ef þú sýnir Pickford þetta mark aftur þá viðurkenni hann að hann hefði átt að gera betur.“

Skotið var ekki alveg út við stöng.Salih Zeki Fazlioglu/Getty Images

Hinn 22 ára gamli Tchouaméni skoraði fyrra mark Frakklands á 17. mínútu og Oliver Giroud kom Frakklandi 2-1 yfir á 78. mínútu eftir að Harry Kane jafnaði metin úr vítaspyrnu. Kane fékk svo annað tækifæri til að jafna metin, aftur af vítapunktinum en spyrna hans fór yfir. England er því úr leik á meðan Frakkland er komið í undanúrslit og mætir þar Marokkó.


Tengdar fréttir

Englendingar æfir út í dómgæsluna

Jude Bellingham og Harry Maguire, leikmenn Englands, voru ekki sáttir við frammistöðu Wilton Sampaio, dómara í leik Frakklands og England í 8-liða úrslitum HM í Katar. Sparkspekingurinn Gary Neville lét brasilíska dómarann einnig heyra það í beinni sjónvarpsútsendingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×