Erlent

Ein og hálf milljón manns án rafmagns eftir árásir Rússa

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Rússar hafa síðastliðna mánuði beint árásum sínum að orkuinnviðum í Úkraínu. 
Rússar hafa síðastliðna mánuði beint árásum sínum að orkuinnviðum í Úkraínu.  Getty/Gian Marco

Viðbúið er að það muni taka einhverja daga að koma rafmagni aftur á í hafnarborginni Odesa í Úkraínu eftir árásir Rússa í gærkvöldi. Um ein og hálf milljón manns eru nú án rafmagns eftir árásirnar. 

„Ástandið í Odesa er mjög erfitt,“ sagði Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, í ávarpi sínu til þjóðarinnar í nótt. Að sögn Selenskí hafa yfirvöld í Noregi sent hundrað þúsund dali til að endurbyggja orkuinnviði landsins.

Að því er kemur fram í frétt Reuters um málið greindi talsmaður stjórnvalda í Odesa frá því að rafmagni verði komið aftur á næstu dögum en að það muni taka tvo til þrjá mánuði að laga orkukerfið að fullu. 

Í Facebook færslu, sem var síðan eytt, var fólk hvatt til að flýja borgina en talsmaðurinn segir stjórnvöld í borginni ekki hafa beint því til borgara. 

Rússar hafa síðustu mánuði einblínt á orkuinnviði í Úkraínu og er árásin í Odesa nýjasta útspilið en íranskir drónar voru notaðir við árásina. Úkraínski herinn sagði á Facebook að fimmtán drónar hafi stefnt á skotmörk í Odesa og Mykolaiv en að tíu hafi verið skotnir niður.

Varnamálaráðuneyti Bretlands telur líklegt að hernaðarlegur stuðningur Írana við Rússa muni aukast á næstu mánuðum.

Einblína á austurhluta Úkraínu

Rúmlega níu mánuðir eru nú liðnir frá því að innrás Rússa inn í Úkraínu hófst en Selenskí sagði í ávarpi sínu í nótt að staðan væri áfram mjög erfið á mörgum svæðum í austurhluta landsins þar sem Rússar hafa verið að sækja fram af miklum þunga. 

Rússar halda áfram að sækja fram í austurhluta landsins, einna helst í Donetsk og Luhansk. Borgin Bakhmut er gjöreyðilögð að sögn forseta Úkraínu. AP/LIBKOS

Borgir á borð við Bakhmut, Soledar, Maryinka og Kreminna hafi sætt linnulausum árásum og Rússar til að mynda gjöreyðilagt Bakhmut í Donbas.  Úkraínski herinn berst nú við Rússa í Donetsk og Luhansk, sem Vladímír Pútín Rússlandsforseti innlimaði ólöglega í september.

Mestu átökin hafi verið í Bakhmut en Rússar hafi einblínt á þann stað eftir að Úkraínumenn náðu Kherson aftur á sitt vald í síðasta mánuði.

Á milli föstudags og laugardags greindi úkraínski herinn frá um tuttugu loftárásum og fleiri en sextíu flugskeytaárásum af hálfu Rússa, að því er kemur fram í frétt AP. Greint hafi verið frá árásum í Kharkív og Sumu í norðausturhluta landsins, Dnipropetrovsk miðsvæðis í Úkraínu, Saporísja í suðaustri og Kherson í suðri. 


Tengdar fréttir

Rýnt í stöðuna í Úkraínu: Pútín segir stríðið lengra en hann bjóst við

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hefur viðurkennt að hin „sértæka hernaðaraðgerð“ eins og hann kallar innrás Rússa í Úkraínu, hefði staðið lengur yfir en hann bjóst við. Hins vegar hefði Rússum tekist að ná landsvæði og sagði hann að kjarnorkuvopn Rússlands hefðu komið í veg fyrir að átökin stigmögnuðust.

Bandaríkjamenn fordæma „óábyrgt“ hjal um kjarnorkuvopn

Bandaríkjamenn hafa fordæmt Rússa fyrir óábyrgt tal um mögulega notkun kjarnorkuvopna eftir að Vladimir Pútín Rússlandsforseti gaf það í skyn í gær að áhættan á notkun vopnanna væri að aukast en að Rússar yrðu ekki fyrstir til að grípa til þeirra.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×