Þá hafa rannsakendur verið að grandskoða gögn sem hald var lagt á í aðgerðum lögreglu í gær. DW hefur eftir háttsettum lögreglumanni að tveir aðilar hafi bæst við hóp þeirra sem grunaðir eru um að hafa komið að ráðabrugginu. Alls eru 54 grunaðir um aðkomu að valdaránstilrauninni.
Margir hinna grunuðu eru sagðir meira en 50 ára gamlir.
Lögreglan segir að þó hópurinn hafi lagt á ráðin um að velta ríkisstjórn Þýskalands úr sessi sé ólíklegt að hann hafi haft burði til þess. Hins vegar innihéldi hópurinn fólk sem ætti mikið af peningum og aðra sem ættu vopn. Augljóst væri að fólkið væri hættulegt og því hefði verið gripið til aðgerða
Vopn fundust á fleiri en fimmtíu af þeim stöðum þar sem lögregluþjónar leituðu í gær.
Eins og fram kom í gær tengist hópurinn Reichsbürger-hreyfingunni svokölluðu sem er hreyfing fjar-hægri öfgamanna sem telja ríkisstjórn Þýskalands ólögmæta. Um tuttugu þúsund manns eru sagðir tilheyra hreyfingunni.
DW sagði frá því að tilefni aðgerða lögreglunnar hafi verið rannsókn á öðrum hópi manna sem tengjast Reichsbürger-hreyfingunni og að sá hópur hafi verið að skipuleggja að ræna Karl Lauterbach, heilbrigðisráðherra Þýskalands.
Dómari og fyrrverandi þingmaður
Birgit Malsack-Winkemann, er meðal þeirra sem voru handtekin í gær. Hún er fyrrverandi þingmaður þýska hægriflokksins Alternative für Deutschland eða AfD. Hún starfar sem dómari en yfirvöld hafa þegar hafið ferli sem snýr að því að reka hana, samkvæmt frétt Zeit.
Það að reka dómara sem vill ekki láta reka sig er sagt mjög erfitt í Þýskalandi. Zeit segir eingöngu hægt að beita því í takmörkuðum tilvikum og að stórir tálmar séu á þeirri tilteknu braut. Þetta sé til að tryggja sjálfstæði dómvaldsins í Þýskalandi.