Enski boltinn

Jesus undir hnífinn og frá keppni næstu mánuðina

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gabriel Jesus þurfti að fara í aðgerð vegna meiðslanna sem hann varð fyrir gegn Kamerún.
Gabriel Jesus þurfti að fara í aðgerð vegna meiðslanna sem hann varð fyrir gegn Kamerún. Marc Atkins/Getty Images

Gabriel Jesus, framherji Brasilíu og Arsenal, verður frá keppni í dágóða stund vegna meiðsla sem hann varð fyrir í leik gegn Kamerún.

Hinn 25 ára gamli framherji var í byrjunarliði Brasilíu sem tapaði óvænt 1-0 fyrir Kamerún í lokaleik riðlakeppninnar á heimsmeistaramótinu í fótbolta sem nú fer fram í Katar. Hann fór meiddur af velli eftir rúmlega klukkustund en upphaflega var talið var að hann yrði frá í 4-6 vikur vegna meiðslanna.

Sky Sports hefur nú greint frá því að framherjinn duglegi hafi þurft að fara undir hnífinn og hefur þegar hafið endurhæfingu. Arsenal vill ekki gefa upp hversu lengi hann verður frá keppni en talið er að um þrjá mánuði hið minnsta sé að ræða.

Það er því gefið að Jesus leikur ekki meira með Brasilíu á HM og þá mun hann missa af mikilvægum leikjum Arsenal í ensku úrvalsdeildinni. Skytturnar hefja leik að nýju strax á annan í jólum þegar West Ham United kemur í heimsókn.

Jesus gekk í raðir Arsenal síðasta sumar og er stór ástæða þess að liðið trónir á toppi deildarinnar með fimm stiga forskot enda hefur hann byrjað alla deildarleiki liðsins til þessa. Nú þarf Mikel Arteta, þjálfari Arsenal, að finna annan leikmann til að leiða línuna þar sem Jesus verður fjarri góðu gamni næstu mánuði.


Tengdar fréttir

Verður Gabriel Jesus frá næstu þrjá mánuðina?

Brasilískir fjölmiðlar greina frá því að Gabriel Jesus leikmaður Arsenal þurfi að fara í aðgerð og verði frá næstu þrjá mánuðina. Jesus meiddist á hné í leik Brasilíu og Kamerún á heimsmeistaramótinu í Katar.

Gabriel Jesus ekki meira með í Katar

Brasilíski framherjinn Gabriel Jesus verður ekki meira með á heimsmeistaramótinu í Katar vegna meiðsla. Jesus meiddist á hné gegn Kamerún í gær og leikur vafi á því hvort hann verði klár í slaginn þegar enska úrvalsdeildin hefst á ný í lok mánaðarins.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.