Erlent

Eld­gosið ógnar sögu­legri lofts­lags­mæli­röð

Kjartan Kjartansson skrifar
Maður fylgist með hrauni renna frá Mauna Loa-eldfjallinu á Stóru eyju Havaí.
Maður fylgist með hrauni renna frá Mauna Loa-eldfjallinu á Stóru eyju Havaí. AP/Gregory Bull

Athuganastöð sem mælir styrk koltvísýrings á Mauna Loa á Havaí hefur verið stopp frá því að eldgos hófst í fjallinu fyrir rúmri viku. Mæliröðin þar er sú elsta samfellda um vaxandi styrk gróðurhúsalofttegundarinnar í lofthjúpi jarðar.

Rennandi hraun frá þessu stærsta eldfjalli jarðar olli rafmagnleysi í athuganastöðinni á Mauna Loa fyrir rúmri viku. Hún hefur gert nær samfelldar mælingar á styrk koltvísýrings í andrúmsloftinu í meira en sextíu ár.

New York Times segir að mælingarnar á Mauna Loa hafi örsjaldan stöðvast á þessum sex áratugum. Þær lögðust af í þrjá mánuði vegna niðurskurðar hjá bandarísku alríkisstjórninni árið 1964 og í rúman mánuð síðast þegar gaus í fjallinu og rafmagni sló út árið 1984.

Bandaríska haf- og loftslagsstofnunin (NOAA) er nú sögð íhuga að fljúga varaaflstöð með þyrlu til athuganastöðvarinnar á Mauna Loa.

Mælingum á koltvísýringsgildum í lofthjúpnum er þó ekki sérstök hætta búin þó að stöðina á eldfjallinu sé tímabundið úr leik. Sambærilegar mælingar eru gerðar á hundruðum annarra staða á jörðinni.

Sýndi hvernig koltvísýringur safnaðist upp í lofthjúpnum

Mælistöðina á Mauna Loa er líklega sú þekktasta í heimi. Charles David Keeling, bandarískur jarðefnafræðingur, hóf athuganirnar árið 1958 en þær sýndu svart á hvítu að styrkur koltvísýrings væri jafnt og þétt að aukast í lofthjúpnum. Grafið sem sýnir þá þróun er nefnt Keeling-ferillinn í höfuðið á honum.

Fyrir mælingar Keelings töldu margir vísindamenn að höf og skógar jarðar drykkju í sig það umframmagn koltvísýrings sem menn losuðu með bruna á jarðefnaeldsneyti. Keeling-ferillinn afsannaði þá kenningu afdráttarlaust.

Þegar Keeling hóf mælingar sínar á Mauna Loa var styrkur koltvísýrings í lofthjúpnum um 313 hlutar af milljón (ppm). Rúmum sextíu árum síðar mælist styrkurinn um 421 ppm, aukning um rúmlega þriðjung. Styrkur gróðurhúsalofttegundarinnar hefur ekki verið hærri í að minnsta kosti fjórar milljónir ára.

Miðað við núverandi losun mannkynsins á gróðurhúsalofttegundum stefnir í að meðalhiti jarðar muni hækka um 2,1 til 2,9 gráður á þessari öld borið saman við tímabilið fyrir iðnbyltingu. Hlýnun hefur í för með sér hættu á ýmis konar loftslagshamförum, þar á meðal ákafari þurrkum og hitabylgjum, öflugri flóðum og auknum veðuröfgum.


Tengdar fréttir

Margir spenntir en aðrir varkárir eftir að Mauna Loa vaknaði

Mikið sjónarspil blasir við á Hawaii þar sem hraun streymir úr stærsta virka eldfjalli heims. Gos hófst í Mauna Loa eldfjallinu aðfaranótt mánudags í fyrsta sinn í fjörutíu ár og Íslendingar kannast eflaust vel við appelsínugula bjarmann og bjarta hraunsprunguna í líkingu við það sem þar má nú sjá. 

Stærsta eld­fjall jarðar byrjað að gjósa

Eldgos hófst í Mauna Loa, stærsta virka eldfjalli jarðar, á Havaí í nótt. Hraunrennsli er enn bundið við tind fjallsins og ógnar það ekki nærliggjandi byggð.

Mesti styrkur koltvísýrings í meira en fjórar milljónir ára

Meðalstyrkur koltvísýrings í lofthjúpi jarðar í maí var helmingi hærri en áður en menn byrjuðu að losa gróðurhúsalofttegundir í stórum stíl. Hann hefur ekki verið meiri í meira en fjórar milljónir ára, löngu fyrir tilvist mannkynsins.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.