Fótbolti

Sagði nafnið sem mátti ekki nefna og fékk ekki að lýsa seinni hálfleik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hakan Sükür þakkar fyrir eftir leikinn um þriðja sætið á HM 2022 sem Tyrkir unnu og hann setti HM-met í.
Hakan Sükür þakkar fyrir eftir leikinn um þriðja sætið á HM 2022 sem Tyrkir unnu og hann setti HM-met í. Getty/Gary M. Prior

Alper Bakircigil missti starfið sitt í gær en hann hefur í mörg ár starfað sem fótboltalýsandi í Tyrklandi. Ástæðan er þó afar furðuleg í augum flestra. Hann nefndi á nafn knattspyrnugoðsögn Tyrkja.

Bakircigil braut eina af óbrjótanlegu reglunum í tyrknesku sjónvarpi og var rekinn í hálfleik. Hann var að lýsa leik Marokkó og Kanada en fékk ekki einu sinni að lýsa seinni hálfleiknum.

Bakircigil varð nefnilega á í messunni þegar hann nefndi tyrknesku goðsögnina Hakan Sükür á nafn.

Nafn Sükür kom upp af því að Marokkó skoraði strax á fjórðu mínútu leiksins og metið yfir fljótasta markið í sögu HM er einmitt í eigu Hakan Sükür sem skoraði eftir aðeins ellefu sekúndur á HM 2002.

Bakircigil sást ekki á skjánum eftir auglýsingarnar í hálfleik og annar lýsandi kláraði leikinn. Bakircigil kom síðan á Twitter og sagði frá því að hann hafi verið rekinn eftir margra ára starf hjá TRT sjónvarpstöðinni.

Sükür var einu sinni mikil þjóðhetja eftir að hafa hjálpað tyrkneska landsliðinu að vinna brons á HM fyrir tuttugu árum. Hann skoraði 51 mark fyrir tyrkneska landsliðið og var helsta stjarna liðsins. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar.

Sükür var gagnrýninn á stjórnvöld í Tyrklandi sem útskúfuðu hann og máluðu hann sem hryðjuverkamann. Hann missti allt sitt og keyrir nú leigubíl í New York.

Sükür hafði fyrst farið inn á þing sem flokksmaður Recep Tayyip Erdogan en yfirgaf síðan flokkinn. Erdogan og flokksmenn hann saka Sükür um að hafa átt þátt í valdaránstilrauninni árið 2016. Hann flúði til Bandaríkjanna árið 2016.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×