Foreldrarnir voru dæmdir í Héraðsdómi Reykjaness fyrr í nóvember. Maðurinn var dæmdur til tveggja ára óskilorðsbundinnar refsingar og konan var dæmd til sex mánaða skilorðsbundinnar refsingar.
Í dómnum var lýst hrottalegu líkamlegu og andlegu ofbeldi sem maðurinn hafði beitt stúlkurnar; slegið þær með belti, herðatré og margítrekað kúgað þær til hlýðni með ógnandi framkomu og kallað þær ljótum nöfnum - oft í viðurvist móðurinnar eða systranna.
Sjá einnig: Refsing fyrir gróft ofbeldi gegn dætrum og eiginkonu þyngd í tvö ár
Í dómi Landsréttar er tíundað að maðurinn hafi verið sakfelldur fyrir að beita dætur sínar og konu ofbeldi um langt skeið. Þá hafi konan verið dæmd fyrir að beita þrjár elstu dæturnar ofbeldi einnig. Þau brot hafi falist í endurtekinni, ógnandi og niðurlægjandi háttsemi yfir langt tímabil.
Dæturnar eru sagðar enn glíma við afleiðingar þessa langvarandi ofbeldis sem þær voru beittar.
Áhugasamir geta lesið úrskurð Landsréttar hér. Dómur var kveðinn upp í Landsrétti föstudaginn 25. nóvember.
Þar segir einnig að í gögnum málsins hafi verið færð rök fyrir því að forsjárhæfni konunnar sé skert, þrátt fyrir að hún hafi leitast við að bæta stöðu sína eftir að dætur hennar voru teknar af henni. Fyrir liggi að hún hafi veikleika á tilfinningasviði og sé enn í afneitun gagnvart eigin gjörðum. Þá séu tengsl hennar við stúlkurnar skert.