Fótbolti

Íranskar konur telja næsta öruggt að ríkis­stjórn Írans fylgist með þeim á HM

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Stuðningskona Írans á leik liðsins gegn Wales á dögunum.
Stuðningskona Írans á leik liðsins gegn Wales á dögunum. Marvin Ibo Guengoer(Getty Images

Kvenkyns stuðningsmenn íranska landsliðsins í fótbolta telja að menn á vegum ríkisstjórnar landsins fylgist með þeim á leikjum liðsins á heimsmeistaramótinu sem nú fer fram í Katar.

Þannig er mál með vexti að konur mega ekki fara á fótboltaleiki í Íran en þónokkrar hafa stutt við bakið á Íran sem eygir enn von um að komast í 16-liða úrslit heimsmeistaramótsins. Á vefnum The Athletic er greint frá því að þónokkrar íranskar konur hafi tekið eftir jakkafataklæddir menn hafi verið að fylgjast með þeim með sjónauka og jafnvel tekið þær upp.

Mikil ólga ríkir nú í Íran þar sem gríðarleg mótmæli hafa átt sér stað. Hefur þúsundum verið stungið í fangelsi og mótmælendur jafnvel dæmdir til dauða. Í gær, mánudag, var greint frá því að fjölskyldum leikmanna hafi verið hótað pyntingum og fangelsisvist ef leikmennirnir myndu ekki haga sér sómasamlega.

Í fyrsta leik Íran sungu leikmenn liðsins ekki með þjóðsöngnum. Í öðrum leik liðsins mátti sjá nokkra leikmenn muldra með en enginn tók undir af líf og sál. Er talið að leikmenn hafi þarna verið að sýna samstöðu með mótmælendum heima fyrir og í raun að mótmæla ríkisstjórn landsins.

Þá greindi The Athletic frá því að fjöldi íranskra kvenna sem nú eru staddar í Katar að fylgjast með HM telji að fylgst sé með þeim þegar Íran spilar. Mótshaldarar segjast gæta fyllsta öryggis og að áhættumat sé gert fyrir hvern leik.

Jafnframt segir í svari ríkisstjórnar Katar við fyrirspurn Athletic að enginn á vegum íranska ríkisins sé að fylgjast með stuðningsfólki Írans í leikjum liðsins á mótinu. Hvorki FIFA né knattspyrnusamband Írans svaraði fyrirspurn Athletic um málið.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.