Fótbolti

Guðný lagði upp í stórsigri í Íslendingaslag

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Guðný Árnadóttir lagði upp fyrsta mark AC Milan í dag.
Guðný Árnadóttir lagði upp fyrsta mark AC Milan í dag. Getty/Pier Marco Tacca

Guðný Árnadóttir og stöllur hennar í AC Milan unnu sannkallaðan stórsigur er liðið heimsótti Alexöndru Jóhannsdóttur og liðsfélaga hennar í ítölsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Lokatölur 1-6 og Guðný átti sinn þátt í fyrsta marki gestanna.

Það var nefnilega Guðný sem lagði upp fyrsta mark AC Milan fyrir Martina Piemonte strax á 11. mínútu leiksins áður en Lindsey Thomas bætti tveimur mörkum við í fyrri hálfleik.

Piemonte skoraði svo annað mark sitt og fjórða mark gestanna á lokamínútu fyrri hálfleiksins og staðan þvó 0-4 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Heimakonur í Fiorentina minnkuðu svo muninn strax á fyrstu mínútu síðari hálfleiks og kannski einhverjir sem létu sér dreyma um ótrúlega endurkomu.

Þeir draumar flugu þó út um gluggann þegar Stephanie Breitner varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið net á 75. mínútu áður en Michaela Dubcova gulltryggði öruggan fimm marka sigur AC Milan, 1-6.

Bæði lið höfðu tapað einum og gert eitt jafntefli í seinustu tveimur umferðum og því voru bæði lið orðin þyrst í sigur. Fiorentina þarf þó að bíða eitthvað lengur eftir sínum sigri, en liðið situr í þriðja sæti deildarinnar með 19 stig eftir tíu leiki, þremur stigum meira en AC Milan sem situr í fimmta sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×