Erlent

„Hann hagaði sér eins og hann væri á veiðum“

Samúel Karl Ólason skrifar
Andrew Bing skaut sex samstarfsmenn sína til bana og særði sex til viðbótar.
Andrew Bing skaut sex samstarfsmenn sína til bana og særði sex til viðbótar. AP

Maðurinn sem skaut sex samstarfsmenn sína til bana í Walmart í Virginíu í Bandaríkjunum í vikunni, keypti byssuna sem hann notaði nokkrum klukkustundum áður. Hann skaut sex undirmenn sína til bana í versluninni og særði sex til viðbótar áður en hann svipti sig lífi.

Hann skyldi eftir sig skilaboð í síma sínum þar sem hann sagði samstarfsmenn sína hafa hæðst að sér. Í þeim skilaboðum baðst hann afsökunar og sagðist ekki hafa skipulagt ódæðið. Hann sagðist leiddur áfram af kölska og bað guð um að fyrirgefa sér fyrir það sem hann ætlaði að gera.

Hann sagði samstarfsmenn sína hafa áreitt sig og taldi að þeir hefðu hakkað síma hans.

Andre Bing var ekki á sakaskrá og hafði hann keypt sér skammbyssu skömmu áður með löglegum hætti. Vitni segja hann hafa gengið inn á kaffistofu verslunarinnar og skotið á fólk án viðvörunar.

Fórnarlömb Bing voru þau Brian Pendleton (38), Kellie Pyle (52), Lorenzo Gamble (43), Randy Blevins (70), Tynek Johnson (22) og Fernando Chavez-Barron (16). Sex voru fluttir særðir á sjúkrahús en einn þeirra er sagður vera enn í alvarlegu ástandi.

Fórnarlömb Bing.AP/Lögreglan í Cesapeake

AP fréttaveitan hefur eftir öðrum samstarfsfélögum Bing að það hafi oft verið erfitt að vinna með honum og hann hafi verið þekktur fyrir að vera fjandsamlegur við undirmenn sína. Einn sem lifði árásina af sagði Bing hafa skotið nokkur af fórnarlömbum sínum ítrekað.

„Hann hagaði sér eins og hann væri á veiðum,“ sagði Jessica Wilczewski við fréttaveituna. Hún sagði að hann hefði virst velja sérstaklega hvaða fólk hann ætlaði að myrða.

Þegar skothríðin hófst faldi hún sig undir borði en Bing fann hana. Hann sagði henni að koma undan borðin en hún segir að þegar Bing sá hver hún var hafi hann sagt henni að fara heim og sleppt henni.

„Farðu heim Jessica,“ mun Bing hafa sagt við hana.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×