Fótbolti

Svein­dís Jane lék í jafn­tefli á meðan Berg­lind Björg sat á bekknum í stór­sigri

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sveindís Jane hóf leik kvöldsins á varamannabekknum.
Sveindís Jane hóf leik kvöldsins á varamannabekknum. Domenico Cippitelli/Getty Images

Alls fóru fjórir leikir fram í Meistaradeild Evrópu í fótbolta í kvöld. Berglind Björg Þorvaldsdóttir sat allan tímann á bekknum í 5-0 sigri París Saint-Germain en Sveindís Jane Jónsdóttir spilaði síðari hálfleikinn í 1-1 jafntefli Wolfsburg í Róm.

Berglind Björg þurfti að sætta sig við að sitja á bekknum frá upphafi til enda þegar PSG vann sannfærandi 5-0 sigur á Vllaznia í dag. Eitt var sjálfsmark en fjórir leikmenn deildu hinum mörkunum sín á milli: Grace Geyoro, Ramona Bachmann, Sandy Baltimore og Magnaba Folquet.

Sveindís Jane byrjaði leik Roma og Wolfsburg á varamannabekknum en kom inn í hálfleik þegar staðan var 1-1. Rómverjar komust yfir í upphafi leiks en Ewa Pajor jafnaði metin eftir rúmlega hálftíma.

Hvorugu liðinu tókst að kreista fram sigurmark og lokatölur 1-1 í Róm. Þegar þremur umferðum er lokið eru Wolfsburg og Roma með sjö stig í B-riðli á meðan St. Polten er með þrjú og Slavia Prag er án stiga.

Í Lundúnum var Real Madríd í heimsókn hjá Chelsea. Eftir markalausan fyrri hálfleik þá skoruðu Englandsmeistararnir tvívegis í þeim síðari. Sophie Ingle braut ísinn og Erin Cuthbert tvöfaldaði forystuna, lokatölur 2-0 Chelsea í vil.

Chelsea er með fullt hús stiga í A-riðli á meðan PSG og Real eru bæði með fjögur stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×