Enski boltinn

Lág­kúra eða kynding hjá Cristiano Ron­aldo þegar hann sýndi nýja úrið í gær?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo átti mjög ljótan og sóðalegan viðskilnað við Manchester United
Cristiano Ronaldo átti mjög ljótan og sóðalegan viðskilnað við Manchester United Getty/Pedro Fiúza/

Cristiano Ronaldo hefur spilað sinn síðasta leik með Manchester United en hann og enska félagið tilkynntu um það í gær að þau hefðu komist að samkomulagi um starfslok.

Endir Ronaldo hjá United var eins ljótur og þeir gerast og eftir viðtalið hjá Piers Morgan þar sem Portúgalinn drullaði yfir allt hjá félaginu var ljóst að hann ætti ekki afturkvæmt á Old Trafford.

Það vakti hins vegar athygli að um svipað leyti og United gaf út tilkynninguna þá setti Ronaldo mynd af nýja úrinu sínu inn á Instagram.

Allt gott og blessað en svo fóru menn að skoða úrið aðeins betur og þá veltu menn fyrir sér hvort að þetta væri hrein lágkúra eða kynding hjá Ronaldo.

Á úrinu er nefnilega teikning af kappanum að skora fyrir Real Madrid og á móti Manchester United.

Ronaldo lék fimm leiki með Real Madrid og Juventus á móti United og skoraði þrjú mörk i þeim þar á meðal sigurmark í Meistaradeild leik United og Real á Old Trafford í mars 2013.

Real Madrid vann einvígið 3-2 samanlagt í sextán liða úrslitunum 2012-13 og Ronaldo skoraði tvö markanna.

Hér fyrir neðan má sjá Ronald sýna nýja úrið sitt sem og markið sem um ræðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×