Erlent

Tenging Kher­son við um­heiminn styrkist

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu.
Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu. AP/Andrew Kravchenko

Tímamót urðu í dag þegar forsætisráðherra Bretlands fór í óvænta heimsókn til Úkraínu, í fyrsta sinn frá því hann tók við embætti. Hann hét Selenskí áframhaldandi ríkulegum stuðningi Breta. Þá styrkist tenging Kherson-borgar við umheiminn nú með degi hverjum, þó staðan sé enn alvarleg.

Þúsundir söfnuðust saman á aðaltorgi Kherson-borgar í gær og þáðu þar matargjafir og aðra mannúðaraðstoð en nú er smám saman verið að tjasla borginni saman eftir að Rússar hörfuðu þaðan fyrir viku.

„Sérstakir staðir, „ósigrandi staðir“ voru opnaðir í Kherson í dag. Fyrstu tveir. Þeir verða fleiri. Þar sem rafmagnið er komið á í borginni getur fólk hlaðið símana sína, haldið á sér hita, drukkið te og fengið hjálp. Fjarskipti eru komin á, fólk hefur Starlink og svo framvegis. Við vitum að þetta er mjög erfitt fyrir fólkið því hernámsliðið eyðilagði allt áður en það lagði á flótta. En við munum tengja allt, lagfæra allt,“ sagði Selenskí í ávarpi. 

Þá urðu tímamót í gær þegar fyrsta lestin tók á brott frá Kherson til Kænugarðs í níu mánuði. Lestinni var svo fagnað ákaft þegar hún lagði af stað til baka frá Kænugarði.

Önnur tímamót urðu svo í dag þegar Rishi Sunak forsætisráðherra Bretlands fór í fyrsta sinn til fundar við Vólódímír Selenskí Úkraínuforseta í dag. Heimsóknin var óvænt en leiðtogarnir hittust í Kænugarði, þar sem Sunak hét áframhaldandi stuðningi við Úkraínumenn í stríðinu. Stuðningurinn felst meðal annars í nýjum loftvarnarbúnaði handa Úkraínu; fimmtíu milljón punda pakki, segir í frétt BBC. Þá munu Bretar einnig senda mannafla, sérþjálfaða verkfræðinga og herlækna, til aðstoðar Úkraínumönnum.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.