Erlent

Artemis-1 loks á leið til tunglsins

Samúel Karl Ólason skrifar
Artemis-1 á leið til tunglsins.
Artemis-1 á leið til tunglsins. NASA/Bill Ingalls

Starfsmenn Geimvísindastofnunar Bandaríkjanna (NASA) skutu í morgun geimfari af stað til tunglsins. Eftir ítrekaðar frestanir bar fyrsta Space Launch System eldflaugin, sem er sú öflugasta sem hefur verið framleidd, Orion-geimfar á braut um jörðu en þaðan verður farinu flogið til tunglsins.

Um ómannaða geimferð er að ræða og á hún að taka um 26 daga. Í þann tíma verður geimfarið á sporbraut um tunglið áður en því verður flogið aftur til jarðarinnar.

Þetta er fyrsta geimskot Artemis-áætlunarinnar sem snýr að því að lenda mönnum aftur á tunglinu og koma þar upp bækistöð til að nota sem stökkpall lengra út í sólkerfið.

Sjá einnig: NASA horfir lengra út í geim

Í spilaranum hér að neðan má sjá geimskotið í morgun.

Þegar þetta er skrifað nýfarið af braut um jörðu og á leið til tunglsins. Geimfarið var sent í kringum jörðina til að safna hraða fyrir ferðina til tunglsins. Sólarrafhlöður Orion-geimfarsins eru virkar og virkar geimfarið vel, samkvæmt upplýsingum á vef NASA.

Artemis-1 snýr ekki eingöngu að því að kanna getu og öryggi SLS-eldflaugarinnar og Orion-geimfarsins. Einnig stendur til að koma flota smárra gervihnatta sem kallast CubeSat á braut um tunglið. Þá á svo meðal annars að nota til að leita að ís á og undir yfirborði tunglsins, sem hægt verður að nota við að koma upp mannaðri bækistöð á tunglinu í framtíðinni.

Hér að neðan má sjá ítarlegt myndband þar sem farið er yfir verkefnið.

Orion-geimfarið er búið mörgum myndavélum sem eiga að fanga ferðalagið og myndefni af tunglinu. Vísindamenn og verkfræðingar NASA munu einnig nota myndavélarnar til að fylgjast með geimfarinu og ástandi þess.

Þá er myndavél á enda allra fjögurra sólarrafhlaða Orion en hægt er að nota þær til að fanga umhverfi geimfarsins, jörðina og tunglið á mynd.

Gestir fylgjast með geimskotinu í Flórída í morgun.NASA/Bill Ingalls


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×