Erlent

Katrín segist fylgjast grannt með stöðunni í Pól­landi

Kjartan Kjartansson skrifar
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Vísir/Vilhelm

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir íslensk stjórnvöld fylgjast grannt með gangi mála í Póllandi í kjölfar þess að tveir létust þar þegar flugskeyti lenti á bæ nærri landamærunum að Úkraínu.

Taugatitringur hefur gripið um sig á meðal Atlantshafsbandalagsríkja eftir að fregnir bárust af því að flugskeyti sem kom yfir landamærin að Úkraínu hefði fellt tvo í bæ í austanverðu Póllandi síðdegis í dag. AP-fréttastofan hafði eftir bandarískum leyniþjónustmanni að rússnesk flugskeyti hefðu lent í Póllandi. Það hefur þó ekki verið staðfest enn.

Viðbúnaður pólska hersins var aukinn í kjölfarið og meta stjórnvöld þar nú hvort þau eigi að virkja ákvæði stofnasáttmála NATO um samráð þegar öryggi aðildarríkis er ógnað. Stofnsáttmálinn gerir ennfremur ráð fyrir því að árás á eitt aðildarríki teljist árás á þau öll.

Reuters-fréttastofan hefur eftir heimildarmönnum sínum að sendiherrar NATO-ríkja fundi á morgun að beiðni Pólverja.

Andrzej Duda, forseti Póllands, hefur meðal annars rætt við Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATO, og Joe Biden Bandaríkjaforseta í kvöld. Leiðtogar Evrópusambandsins og annarra NATO-ríkja hafa lýst þungum áhyggjum af vendingunum.

Í tísti sem Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sendi frá sér í kvöld lýsti hún fréttunum frá Póllandi sem áhyggjuefni.

„Ísland stendur með pólsku þjóðinni og við fylgjumst grannt með atburðum,“ tísti hún.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra, tísti á svipuðum nótum í kvöld. Sendi hún Pólverjum samúðarkveðjur vegna mannfallsins í því sem hún sagði ógnvekjandi sprengingum þar.

Ríkisútvarpið segir að upplýsingafundur með fulltrúum utanríkisráðuneytisins og utanríkismálanefnd Alþingis vegna atburðanna í Póllandi verði haldinn í fyrramálið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×