Erlent

Leynilegu geimfari lent aftur eftir langa geimferð

Samúel Karl Ólason skrifar
X-37B var 908 daga á braut um jörðu en geimfarinu var skotið á loft um vorið 2020. Þetta var sjötta geimferð þess frá 2010.
X-37B var 908 daga á braut um jörðu en geimfarinu var skotið á loft um vorið 2020. Þetta var sjötta geimferð þess frá 2010. AP/Boeing og Geimher Bandaríkjanna

Geimher Bandaríkjanna lenti um helgina leynilegu geimfari á jörðinni eftir að það hafði verið út í geimi í 908 daga. Það er mettími en áður hafði geimfarið, sem ber heitið X-37B lengst verið 780 daga í geimnum. Þetta var sjötta geimferð X-37B.

Geimfarið líkist mjög gömlu geimskutlunum en er mikið minna og var því fyrst skotið á loft árið 2010. Það gengur að mestu fyrir sólarorku þegar það er út í geimi en geimfarið bar að þessu sinni margvíslegan vísindabúnað.

Geimfarinu var lent við Kennedy-geimmiðstöð NASA í Flórída á laugardaginn.

Meðal annars sem geimfarið var notað til rannsaka var hvaða áhrif langvarandi geislun í geimnum hefur á fræ og margvísleg efni með því markmiði að undirbúa langar geimferðir í framtíðinni og varanlega búsetu manna í geimnum.

X-37B bar einnig margvíslegar rannsóknir fyrir vísindamenn sjóhers og flughers Bandaríkjanna.

Ein af þessum rannsóknum sjóhersins sneri að notkun sólarorku og hvernig beisla megi hana í geimnum og senda til jarðarinnar. Tæknilega séð gæti slík tækni boðið upp á stöðuga sólarorku sem væri að engu leyti háð snúningi jarðarinnar um sólina.

Geimfarið bar einnig gervihnött fyrir flugher Bandaríkjanna en hann kallast FalconSat-8 og er enn á braut um jörðu.

Í yfirlýsingu sem birt var um helgina segir einn af forsvarsmönnum Boeing, sem komu að smíði geimfarsins, að X-37B hafi verið notað til að prófa nýja tækni í geimnum á máta sem hafi ekki verið í boði áður.

Heilt yfir hefur geimfarið verið 3.774 daga í geimnum og flogið rúmlega tvo milljarða kílómetra.

Hér að neðan má sjá myndband um X-37B sem Boeing birti fyrir fimm árum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×