Nú þegar hafa verk úr safninu verið seld fyrir einn og hálfan milljarð Bandaríkjadala sem er hæsta verð sem fengist hefur fyrir listaverkasafn á uppboði í sögunni. Enn fleiri verk verða seld í dag og því ljóst að upphæðin á eftir að hækka til muna.

Paul Allen, sem lést árið 2018, var ástríðufullur málverkasafnari og átti hann verk eftir stórmeistara á borð við Paul Gauguin, Cézanne, van Gogh og Gustav Klimt. Allur ágóði af sölu verkanna mun renna til góðgerðarmála eins og Allen hafði fyrirskipað í erfðaskrá sinni.
Á meðal verka sem seldust í gær var mynd eftir Georges Seurat sem fór fyrir metfé eða 150 milljónir dala. Þá seldist verk eftir Gustav Klimt á 105 milljónir dala, og van Gogh mynd fór á 117 milljónir sem einnig er met.