Fótbolti

Kallaði leikmann sinn svikara og rak hann í beinni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
José Mourinho veitti engan afslátt eftir jafntefli Roma og Sassuolo.
José Mourinho veitti engan afslátt eftir jafntefli Roma og Sassuolo. getty/Emmanuele Ciancaglini

José Mourinho sýndi klærnar á blaðamannafundi eftir 1-1 jafntefli Roma við Sassuolo í ítölsku úrvalsdeildinni í gær. Hann kallaði einn Rómverja svikara og sagði honum að finna sér nýtt lið.

„Við erum með svikara í liðinu sem sveik alla aðra. Það er synd,“ sagði Mourinho hundfúll eftir leikinn gegn Sassuolo.

„Heilt yfir er ég sáttur við liðið en þetta er stakur leikmaður sem ég er að tala um. Í dag notaði ég sextán leikmenn. Ég var ánægður með fimmtán þeirra.“

Mourinho sagði ekki hver svikarinn væri en ítalskir fjölmiðlar greina frá því að Hollendingurinn Rick Karsdorp hafi verið sá sem Portúgalinn var svona ósáttur við. Mourinho var ekki sáttur með hvernig Karsdorp varðist í jöfnunarmarki Sassuolo.

„Ég talaði ekki svona um [Roger] Ibanez eftir mistökin í Rómarslagnum því hann sýndi gott viðhorf og mistök eiga sér stað í fótbolta. Það sem truflar mig er þegar viðhorfið er ekki rétt. Þessi leikmaður þarf að finna sér nýtt lið í janúar,“ sagði Mourinho.

Roma keypti Karsdorp eftir að hann varð hollenskur meistari með Feyenoord 2017. Hann hefur leikið 121 leik fyrir Roma og skorað eitt mark.

Roma er í 6. sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar. Síðasti leikur liðsins á þessu ári er gegn Torino á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×