Erlent

33 ára kona hand­tekin vegna morðsins í Hol­bæk

Atli Ísleifsson skrifar
Lögreglumaðurinn Kim Løvkvist ræðir við fjölmiðla fyrir framan lögreglustöðina í Hróarskeldu.
Lögreglumaðurinn Kim Løvkvist ræðir við fjölmiðla fyrir framan lögreglustöðina í Hróarskeldu. EPA

Lögregla á Sjálandi í Danmörku hefur handtekið 33 ára konu vegna gruns um að tengjast morðinu á 37 ára barnshafandi konu í Holbæk á fimmtudagskvöldið.

Lögregla á Mið- og Vestur-Sjálandi greinir frá þessu í fréttatilkynningu í morgun. Segir að konan hafi verið handtekin í gærmorgun. Hin handtekna er sögð tengjast fórnarlambinu og að grunuð um að hafa komið að skipulagningu morðsins.

Í frétt DR segir að hin handtekna sé afganskur ríkisborgari og að hún sé skráð til heimilis í Danmörku. Hún verður leidd fyrir dómara í dag þar sem ákvörðun verður tekin um hvort hún verði úrskurðuð í gæsluvarðhald.

Lögregla handtók í gær 24 ára karlmann vegna gruns um að hafa orðið konunni sem var afgönsk og á leið heim úr vinnu sinni á hjúkrunarheimili í Holbæk þegar hún var stungin til bana.

Hún hafði sest inn í bíl sinn þegar maðurinn réðst á hana og stakk hana ítrekað og dró hana úr bílnum. Samstarfsfélagi konunnar reyndi að stöðva manninn en tókst ekki að bjarga lífi hennar.

Heilbrigðismönnum tókst að bjarga lífi barns konunnar. Talið er að konan hafi verið skotmark mannsins og að ekki hafi verið um handahófskennda árás að ræða.

Rannsókn málsins er enn í fullu gangi að sögn lögreglu sem leitar að tveimur karlmönnum sem eru taldir hafa orðið vitni að árásinni. Þeir eru grunaðir um að hafa verið að fremja rán í nágrenninu en lögreglan hefur sagt að þeir verði ekki handteknir vegna þess gefi þeir sig fram.


Tengdar fréttir

Barns­hafandi kona stungin til bana í Dan­mörku

Barnhafandi kona var stungin til bana í Holbæk á Sjálandi í Danmörku í gærkvöldi. Lögregla á Sjálandi segir að konan hafi verið 37 ára og margsinnis stungin með hníf. Fram kemur að barn konunnar sé enn á lífi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×