Umfjöllun: ÍBV - Leiknir 1-0 | Arnar Breki kláraði fallna Breiðhyltinga

Einar Kárason skrifar
Leiknir var fallið fyrir leik dagsins.
Leiknir var fallið fyrir leik dagsins. vísir/tjörvi

Leiknir sótti ÍBV heim í síðasta leik sínum í Bestu deild karla í bili. Leikurinn skipti litlu máli fyrir bæði lið en svo fór að Eyjamenn unnu eins marks sigur en sigurmarkið kom undir lok leiks.

Leikurinn var fremur tíðindalítill framan af. Bæði lið áttu marktilraunir en úr ýmist afar erfiðum færum eða víðsfjarri markrammanum. Heimamenn sóttu með vindinn í bakið í fyrri hálfleiknum og voru líklegri aðilinn til að brjóta ísinn. ÍBV fékk fjölmargar hornspyrnur og tækifæri til að koma sér í ágætis stöður en lítið gekk.

Hart var tekist á og mikil læti en gæðin ekki á pari við dugnað og vilja leikmanna beggja liða. Það var ekki fyrr en eftir um hálftíma leik að Jón Ingason átti fast skot vel utan af velli en boltinn beintí hendur Viktors Freys Sigurðssonar í marki Leiknis. Felix Örn Friðriksson átti tilraun úr fínu færi stuttu síðar en boltinn framhjá stönginni fjær.

Bæði lið komu sér í ágætar stöður þegar líða tók á hálfleikinn en Jón Kristinn Elíasson í marki ÍBV fór inn í klefa með tandurhreina hanska enda ekki fengið á sig skot. Heimamenn áttu nokkur skot að marki en ekkert til að fá áhorfendur úr sætum sínum.

Það var því markalaust þegar leikmenn gengu til búningsherbergja eftir gæðalítinn fyrri hálfleik.

Gestirnir úr Breiðholti hófu síðari hálfleikinn með sinni fyrstu marktilraun, beint eftir upphafsflaut. Emil Berger átti þá vongóðu tilraun en boltinn í hendur Jóns Kristins. Leiknismenn fóru vel af stað í síðari hálfleiknum og virtust líklegri til að skora á fyrstu mínútum hans en þeir voru allan fyrri hálfleikinn.

Bestu færi leiksins litu ljós þegar rúmlega stundarfjórðungur var eftir þegar Viktor Freyr varði vel frá Arnari Breka Gunnarssyni framherja ÍBV. Boltinn út í teig þar sem Halldór Jón Sigurður Þórðarson var mættur en tilraun hans var bjargað á línu. Einungis sekúndum síðar þurfti Jón Kristinn að verja vel hinumegin á vellinum þegar Jón Hrafn Barkarson lét vaða úr kjörstöðu.

Síðari hálfleikurinn var töluvert skemmtilegri en sá fyrri. Mun fleiri og betri marktilraunir hjá báðum liðum en áhorfendur á Hásteinsvelli þurftu að bíða þar til undir lok leiks eftir fyrsta og eina marki leiksins. Breki Ómarsson, sem komið hafði inn á sem varamaður í liði ÍBV, fann Arnar Breka á milli miðvarða gestanna. Arnar tók snertingu áður en hann setti boltann vinstra megin við Viktor Frey, alveg út við stöng. Eyjamenn komnir yfir og einungis þrjár mínútur eftir af venjulegum leiktíma.

Ekki litu fleiri alvöru færi dagsins ljós og svo fór að Leiknismenn ljúka leik í deild þeirra bestu með tapi í Vestmannaeyjum.

Af hverju vann ÍBV?

Eyjamenn voru heilt yfir betra liðið og fengu færi til að skora fleiri mörk. 

Hverjir stóðu upp úr?

Arnar Breki Gunnarsson var góður í liði ÍBV í dag. Átti nokkrar fínar marktilraunir og skoraði sigurmark leiksins. Sigurður Arnar Magnússon og Alex Freyr Hilmarsson áttu fínan dag á miðjunni ásamt því að varnarlína heimamanna ásamt markverði stóð vaktina vel.

Í liði gestanna var Viktor Freyr Sigurðsson einn bestur en hann varði nokkrum sinnum vel ásamt því að grípa inn í þegar þess þurfti.

Hvað gekk illa?

Mikið vantaði upp á gæði og fínhreyfingar framan af leik hjá báðum liðum en batnaði svo um munaði í síðari hálfleiknum. Leiknismenn eru örugglega svekktir yfir því að hafa fengið á sig mark undir lok leiks eftir fína frammistöðu varnarlega og var markið helst til of auðfengið. Ein sending milli manna og dauðafæri.

Hvað þýða úrslitin?

Úrslitin breyta ekki miklu. ÍBV er enn í deild þeirra bestu og styrktu stöðu sína enn frekar

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.