Innlent

Angjelin dæmdur í tuttugu ára fangelsi og þre­menningarnir sekir um sam­verknað

Tryggvi Páll Tryggvason og Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifa
Angjelin Sterkaj í dómsal í morgun.
Angjelin Sterkaj í dómsal í morgun.

Angjelin Sterkaj hefur verið dæmdur í tuttugu ára fangelsi fyrir morðið á Armando Beqirai. Landsréttur sneri við sýknu héraðsdóms yfir þremur samverkamönnum hans. Þau eru að mati Landsréttar öll sek um samverknað í morðinu og dæmd í fjórtán ára fangelsi.

Angjelin var einnig dæmdur til að greiða eiginkonu Armando 31 milljón krónur í miska- og skaðabætur. Börn þeirra fá þrjár milljónir í skaðabætur hvort og rúmar sjö milljónir í skaðabætur vegna framfærslumissis. Foreldrar Armando fá þrjár milljónir í skaðabætur. 

Þetta er niðurstaða Landsréttar sem kvað upp dóm í málinu klukkan 14 í dag.

Angjelin var dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur í sextán ára fangelsi fyrir morðið á Armando Beqirai í Rauðagerði í febrúar 2021. Héraðsdómur sýknaði hins þegar þrjá samverkamann Angjelins af aðild að málinu, þau Claudiu Sofiu Coelho Carvalho, Murat Selivrada og Shpetim Qerimi.

Ríkissaksóknari áfrýjaði þessari niðurstöðu héraðsdóms til Landsréttar. Fór ákæruvaldið fram á það að dómurinn yfir Angjelin yrði þyngdur í 18-20 ár. Þá krafðist ákæruvaldið einnig refsingar yfir hinum þremur meintu samverkamönnum sem sýknaðir voru í héraðsdómi. 

Ein umfangsmesta rannsókn seinni tíma

Undir miðnætti laugardagskvöldið 13. febrúar kom Armando Beqirai, 33 ára fjölskyldufaðir frá Albaníu, að heimili sínu í Rauðagerði. Hann lagði bíl sínum í bílskúrnum og þegar hann gekk út um bílskúrsdyrnar var hann skotinn níu sinnum.

Rannsókn málsins var ein sú umfangsmesta í síðari tíð. Var fjöldi fólks handtekinn við rannsóknina en grunur lék á um að morðið tengdist einhvers konar uppgjöri í undirheimunum.

Málið var gert upp í sérstökum annál fréttastofu fyrir síðustu áramót.

Við meðferð málsins í Landsrétti hélt verjandi Angjelins því fram að lögregla hafi ekki staðið sig í stykkinu og upplýst nógu vel um aðdraganda morðsins. Verjandi Claudiu sagði ekkert benda til að hún hafi vitað af ætlunum til morðs áður en það var framið. Þá sakaði verjandi Murats lögreglu um að hafa falið vitnisburði sem sýni fram á sakleysi Murats.

Murat var ákærður fyrir að hafa sýnt Claudiu tvær bifreiðar í umsjón Armando sem hún átti að fylgjast með. Claudia var ákærð fyrir að hafa fylgst með bifreiðunum og látið Angjelin, fyrrverandi ástmann sinn, vita af ferðum Armandos þetta kvöld.

Öll sökuð um að hafa vitað af áætlun Angjelins

Shpetim var ákærður fyrir að hafa ekið bílnum sem Angjelin fór í að Rauðagerði til að myrða Armando. Þau voru öll sögð hafa vitað af áætlun Angjelins fyrir fram og tekið þátt í atburðarrásinni sem leiddi til dauða Armandos.

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari lagði áherslu á meintan þátt þremenninganna í morðinu í Rauðagerði.Vísir

Kolbrún Benediktsdótir, varahéraðssaksóknari, sótti málið í Landsrétti fyrir ákæruvaldið rétt eins og hún gerði í héraði. Hún lagði áherslu á að þremenningarnir, Shpetim, Murat og Claudia hafi vitað af ætlunum Angjelins fyrir fram. 

Þá hafi Angjelin, þvert á það sem hann heldur fram, skipulagt morðið. Hann hafi til að mynda beitt skammbyssu með hljóðdeyfi í árásinni og vegna myndbandsgagna hafi allt bent til þess að hann hafi verið búinn að skrúfa hljóðdeyfinn á byssuna áður en hann fór og hitti Armando fyrir utan heimili hans umrætt kvöld.


Tengdar fréttir

Í­trekaði tuga milljóna bóta­kröfu fjöl­skyldu Armandos

Réttargæslumaður fjölskyldu Armando Beqirai, fjölskylduföður sem var skotinn til bana fyrir utan heimili hans í Rauðagerði í febrúar í fyrra, ítrekaði kröfur fjölskyldunnar um miska- og skaðabætur fyrir Landsrétti í dag. 

Krefjast þyngri refsingar fyrir morðið í Rauðagerði

Ríkissaksóknari fer fram á að dómurinn yfir Angjelin Sterkaj í Rauðagerðismálinu verði þyngdur. Angjelin var dæmdur í sextán ára fangelsi fyrir morðið á Armando Beqirai í Rauðagerði í febrúar 2021.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×