Erlent

Önnur árás framin á meðan forsetahjónin heiðruðu fórnarlömb

Árni Sæberg skrifar
Forsetahjónin lögðu kerti við minnisvarða um fórnarlömb árásar sem beint var gegn hinsegin fólki.
Forsetahjónin lögðu kerti við minnisvarða um fórnarlömb árásar sem beint var gegn hinsegin fólki. Facebook/Zuzana Čaputová

Forsetahjón Íslands eru í opinberri heimsókn í Slóvakíu þessa dagana. Í morgun lögðu þau kerti á minnisvarða um tvö fórnarlömb skotárásar sem framin var fyrir framan skemmtistað hinsegin fólks í landinu á dögunum. Á sama tíma og þau gerðu það bárust fregnir af annarri árás á hinsegin hjón.

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og Eliza Reid eiginkona hans hófu opinbera heimsókn til Slóvakíu með fundi með forseta Slóvakíu, Zuzönu Čaputová. Þá lögðu þau kerti við minnisvarða um fórnarlömb skotárásar sem framin var í höfuðborg landsins fyrir tveimur viku.

Čaputová segir á Facebooksíðu sinni að henni þyki mjög leitt að hafa fengið fregnir um að önnur árás gegn hinsegin fólki hafi verið framin á sama tíma og Guðni og Eliza heiðruðu fórnarlömb fyrri árásarinnar.

Hún segir að Ísland sé Slóvökum mikill innblástur hvað varðar jafnrétti og jafnrétti. Hún hafi rætt þau málefni við Guðna sem sannfærði hana um að hjónabönd og sambúð samkynhneigðra ógni hefðbundinni fjölskyldu ekki með nokkrum hætti.

Hún segir jafnframt að Slóvakar verði að berjast gegn hatursorðræðu í garð hinsegin fólks til þess að koma í veg fyrir fleiri árásir gegn hinsegin fólki.

Heimsækja læknanema á morgun

Í tilkynningu á vef skrifstofu forseta Íslands segir að í sendinefnd forseta séu Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra og Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri, auk embættismanna og fulltrúa frá skrifstofu forseta. Þá fylgi forseta fjöldi fulltrúa úr viðskiptalífinu sem hyggjast efla samstarf við Slóvaka á sviði jarðhitanýtingar, rannsókna og nýsköpunar.

Að loknum fundum í forsetahöllinni hafi verið haldið í ráðstefnusal utanríkisráðuneytis Slóvakíu þar sem forseti Íslands og forseti Slóvakíu settu sérstakt málþing um jarðhita og leiðir til að efla samstarf þjóðanna á sviði umhverfisvænnar orku og nýsköpunar.

Þá segir í tilkynning frá skrifstofu forseta að þeir Guðni og Willum Þór muni á morgun fara til bæjarins Martin þar sem tæplega tvö hundruð Íslendingar stunda læknanám. Þeir munu ræða við stjórn háskólans og við nemendurna um námið þar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×