Fótbolti

Frá Þrótti í Laugar­dalnum til Fenerbahçe í Istanbúl

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Danielle Marcano hefur yfirgefið Þrótt.
Danielle Marcano hefur yfirgefið Þrótt. Vísir/Hulda Margrét

Danielle Marcano spilaði einkar vel með Þrótti Reykjavik í Bestu deild kvenna í fótbolta síðasta sumar. Hún hefur nú söðlað um og samið við tyrkneska liðið Fenerbahçe en það er staðsett í Istanbúl.

Marcano raðaði inn mörkum fyrir Þrótt í sumar en hún skoraði níu mörk í 15 leikjum í Bestu deildinni en hún samdi við Þrótt fyrir tímabilið. Hún spilaði sinn þátt í að Þróttur endaði í 4. sæti Bestu deildarinnar í sumar.

Þessi 25 ára sóknarþenkjandi leikmaður kom fyrst hingað til lands um mitt ár 2021 og skoraði þá sex mörk í 12 leikjum fyrir HK í Lengjudeildinni. Hún er greinilega ævintýragjörn og eftir stutt stopp í Laugardalnum ákvað Marcano að halda til Istanbúl og semja við tyrkneska stórveldið Fenerbahçe.

Þar í landi er deildin tiltölulega nýfarin af stað en eftir tvær umferðir er Fenerbahçe með þrjú stig í B-riðli. Vonast Fenerbahçe til að Marcano geti hjálpað liðinu að komast enn lengra en á síðustu leiktíð þegar það féll úr leik í undanúrslitum.

Tyrknesku deildinni þar er skipt í tvo riðla, níu lið eru í A-riðli og tíu lið eru í B-riðli. Efstu tvo liðin úr hvorum riðli fara svo í umspil um titilinn á meðan neðstu tvö liðin fara í umspil um hvaða lið falla úr deildinni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.