Erlent

Stofnandi Red Bull látinn

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Dietrich Mateschitz fagnar hér með Max Verstappen, ökumanni Red Bull formúluliðsins.
Dietrich Mateschitz fagnar hér með Max Verstappen, ökumanni Red Bull formúluliðsins. Peter Fox/Getty Images

Austurríski milljarðamæringurinn Dietrich Mateschitz, stofnandi orkudrykkjaframleiðandans Red Bull, er látinn 78 ára að aldri.

Mateschitz lést í gær. Hann er best þekktur fyrir að hafa stofnað orkudrykkjaframleiðandann Red Bull, sem á undanförnum árum hefur verið helsti styrktaraðili samnefndra íþróttaliða sem keppa í hinum ýmsu íþróttum.

Þekktasta liðið er Formúla 1 liðið Red Bull sem stendur nú í ströngu þar sem bandaríska formúlan er haldin um helgina.

„Þetta er mjög sorglegt. Þetta var stórkostlegur maður,“ sagði Christian Horner, stjórnandi Formúla 1 liðs Red Bull um andlát Mateschitz.

Taílandsferð breytti lífi hans

Á vef BBC segir að Mateschitz hafi á árum starfað sem sölumaður hjá Procter & Gamble. Á ferðum hans um Taíland smakkaði hann hins vegar drykk sem nefnist Krating Daeng. Drykkurinn varð síðar að hinum heimsfræga orkudrykk Red Bull.

Árið 1984 stofnaði hann Red Bull í samstarfi við taílenskan framleiðenda Krating Daeng. Red Bull orkudrykkurinn kom fyrst á markað árið 1987 og gerði Mateschitz að milljarðamæring.

Eftir velgengi orkudrykksins fór Mateschits í auknum mæli að snúa sér að íþróttum og þá helst jaðaríþróttum. Red Bull er helsti styrktaraðili fjölda liða sem keppa í hinum ýmsu íþróttum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×