Enski boltinn

Carrick gerist knattspyrnustjóri

Sindri Sverrisson skrifar
Michael Carrick fékk nasaþefinn af því að starfa sem knattspyrnustjóri hjá Manchester United.
Michael Carrick fékk nasaþefinn af því að starfa sem knattspyrnustjóri hjá Manchester United. Getty/Matthew Peters

Michael Carrick, fyrrverandi leikmaður Manchester United, Tottenham og West Ham, er orðinn knattspyrnustjóri og hefur samþykkt að taka við enska B-deildarliðinu Middlesbrough.

Sky Sports greinir frá þessu. Carrick tekur við Boro í 22. sæti næstefstu deildar Englands en félagið rak Chris Wilder í byrjun þessa mánaðar og hefur Leo Percovich stýrt liðinu til bráðabirgða.

Carrick hefur einmitt reynslu af því að stýra liði til bráðabirgða en það gerði hann hjá Manchester United um skamma hríð fyrir tæpu ári síðan, eftir að Ole Gunnar Solskjær var rekinn og þar til að Ralf Rangnick tók við.

Áður hafði Carrick verið í þjálfarateymi United frá því að hann lagði skóna á hilluna árið 2018, og starfaði hann bæði með José Mourinho og Solskjær.

Samkvæmt Sky Sports mælti enski landsliðsþjálfarinn Gareth Southgate með Carrick í starfið hjá Middlesbrough en Southgate er með sterk tengsl við félagið eftir að hafa verið þar leikmaður og knattspyrnustjóri.

Carrick, sem er 41 árs, gæti stýrt Middlesbrough í fyrsta sinn á laugardaginn þegar liðið tekur á móti Huddersfield. Fyrst spilar liðið hins vegar við Wigan í kvöld. Fimm af fyrstu sjö leikjum Carricks í starfi verða á útivelli, áður en við tekur hlé vegna HM í nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×