Enski boltinn

Sagði úr­slitin frá­bær og rauða spjaldið lík­lega verð­skuldað

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Þjálfari Liverpool var ekki sáttur með dómarana þó lið hans hafi unnið.
Þjálfari Liverpool var ekki sáttur með dómarana þó lið hans hafi unnið. Laurence Griffiths/Getty Images

Jürgen Klopp, þjálfari enska úrvalsdeildarfélagsins Liverpool, var gríðarlega ánægður eftir 1-0 sigur sinna manna á Englandsmeisturum Manchester City á Anfield í dag. Hann viðurkenndi að rauða spjaldið sem hann hafi fengið undir lok leiks hafi eflaust verið réttur dómur.

„Fullkomin úrslit, rosalega góð frammistaða í leik þar sem var gríðarleg ákefð,“ sagði Klopp að leik loknum en leiktíminn var tæpar 100 mínútur með uppbótartíma. „Við vörðumst frábærlega í 99 mínútur rúmlega. Þeir fengu sín augnablik en við vörðumst einstaklega vel í eigin vítateig,“ bætti sá þýski við.

Um markið

„Man City fékk ekki möguleikana á þessum skyndisóknum en við fengum það allavega þrisvar sinnum í leiknum. Allt í kringum markið okkar er einfaldlega stórkostlegt. Yfirsýnin hjá Alisson og hvernig Mo (Salah) klárar færið.“

„Mörk breyta leikjum en það voru mörg jákvæð augnablik í þessum leik gegn liði sem er að mínu mati það besta í heimi.“

Um rauða spjaldið

Klopp var rekinn af velli þegar fimm mínútur lifðu leiks þegar hann rauk út úr tæknisvæði sínu og hellti sér yfir aðstoðardómara leiksins eftir það sem hann taldi vera brot á Salah.

„Það var líklega verðskuldað. En þú getur ekki boðið manni upp á þessa stöðu. Þetta var án efa eitt augljósasta brot sem ég hef séð. Það gerðist beint fyrir framan nefið á línuverðinum og honum var alveg sama, þetta var svo augljóst.“

Um framhaldið

„Þetta eru þrjú stig en við verðum að jafna okkur hratt þar sem við mætum West Ham United á miðvikudaginn kemur. Það verður annar erfiður leikur,“ sagði Klopp að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×