Tjaldið er á vegum samtakanna Arctic Basecamp sem beita félagsvísindum til að koma raunvísindalegum upplýsingum um loftslagsmálin á framfæri við áhrifavalda í heiminum. Alla jafna er tjaldið sett upp fyrir utan Alþjóðlegu efnahagsráðstefnunni í Davos sem hluti af heilum tjaldbúðum.
Nú hefur Arctic Basecamp, sem Gail Whiteman prófessor í félagsvísindum við Exeter háskóla á Bretlandi stofnaði, komið upp einu tjaldi fyrir utan Hörpu þar sem Hringborð norðurslóða er haldið um helgina.
Rætt var við þær Gail Whiteman og Dorrit í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld:
Dorrit er vön að gista í tjöldum Arctic Basecamp en það hefur gert á ráðstefnunni í Davos.
Í samtali við fréttastofu segir Dorrit að mikilvægt sé að allir leggi sitt af mörkum í baráttunni við loftslagsvána. Hún hafi áhrif á okkur öll, meira að segja hundinn Samson, sem mætti með eiganda sínum á ráðstefnuna í dag og viðtalið í kvöldfréttum.

Því vonast Dorrit til þess að geta sofið í tjaldinu í nótt en eins og flestir vita verður ansi kalt. Sennilega töluvert kaldara en verið hefur í Davos þegar Dorrit hefur gist í tjaldbúðunum þar.
„Ég er með náttfötin mín og ég er með svefnpoka svo ég vona að ég geti gert það. En ef ég get ekki gert það í dag skal ég gera það í Davos,“ segir Dorrit.
Skiljanlegt að þróunarlönd taki loftslagsvánni ekki jafnalvarlega og önnur
Dorrit segist vona að þjóðarleiðtogar heimsins hlusti á þá sem berjast gegn loftslagsvánni þó hún efist um að allir geri það. Þó segist hún skilja það mjög vel að þróunarlönd hlusti síður en þróaðri ríki enda hafi vestræn ríki hirt auðlindir þróunarríkja. Því megi ekki krefjast þess af þróunarríkjum að greiða fyrir mistök þeirra þróaðri.