Erlent

Réttað yfir Weinstein vegna Óskarsmála

Kjartan Kjartansson skrifar
Harvey Weinstein í réttarsal í Los Angeles í síðustu viku.
Harvey Weinstein í réttarsal í Los Angeles í síðustu viku. AP/Etienne Laurent

Byrjað verður að velja kviðdómendur fyrir réttarhöld yfir Harvey Weinstein, kvikmyndaframleiðandanum alræmda, í Los Angeles í Bandaríkjunum í dag. Weinstein er ákærður fyrir að brjóta á fimm konum, meðal annars í kringum Óskarsverðlaunahátíð fyrir níu árum.

Ásakanir kvenna á hendur Weinstein fyrir fimm árum urðu kveikjan að svonefndri Metoo-byltingu þar sem konur af flestum sviðum samfélagsins stigu fram og lýstu misnotkun af hálfu karla í valdastöðum. Weinstein var dæmdur í 23 ára fangelsi fyrir nauðgun og kynferðisofbeldi í New York.

Málið sem nú kemur til kasta dómstóla í Los Angeles varðar brot gegn fimm konum. Hann er ákærður fyrir fjórar nauðganir og sjö kynferðislegar árásir, að sögn AP-fréttastofunnar.

Brotin í fjórum ákæruliðunum áttu sér stað í Óskarsverðlaunavikunni árið 2013 þar sem Weinstein átti góðu gengi að fagna með kvikmyndunum Django Unchained og Silver Linings Playbook. Líkt og í öðrum málum gegn honum er Weinstein sagður hafa brotið á konunum á lúxussvítum undir því yfirskini að um viðskiptafundi væri að ræða.

New York Times segir að málið í Kaliforníu hafi upphaflega aðeins verið talið hafa táknræna þýðingu. Weinstein er sjötugur og heilsuveill og á enn eftir að afplána 21 ár af fangelsisdómi sínum í New York. Dómstóll þar leyfði Weinstein hins vegar nýlega að áfrýja dómnum. Ekki er þannig útilokað að hann gæti gengið laus. Lyktir málsins í Los Angeles gætu þannig skipt sköpum fyrir örlög kvikmyndaframleiðandans fyrrverandi.


Tengdar fréttir

Mega ákæra Weinstein í London

Lögreglan í London hefur fengið heimild til að ákæra kvikmyndaframleiðandann Harvey Weinstein fyrir kynferðisofbeldis gagnvart konu í borginni árið 1996.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×