Erlent

Brúin sem tengir Rúss­land við Krím stendur í ljósum logum

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Hér má sjá að hluti brúarinnar er fallinn í sundið.
Hér má sjá að hluti brúarinnar er fallinn í sundið. Twitter/Pololyak

Kerch brúin sem tengir Rússland við Krímskagann í Úkraínu stendur í ljósum logum eftir að gríðarstór sprenging varð fyrr í morgun. Brúin er sögð táknmynd hernáms Rússa á Krímskaga og hötuð af Úkraínumönnum. 

Myndir af brúnni í ljósum logum hafa flætt inn á samfélagsmiðla í morgun en eldurinn hefur brennt minnst tvo vagna lestar sem er á brúnni. Gríðarmikinn svartan reyk leggur frá brúnni og hluti hennar hefur brotnað og fallið í Kerch sund. 

Fram kemur í frétt Guardian að sprengingin hafi heyrst marga kílómetra frá brúnni og hafi gerst klukkan sex í nótt að staðartíma, eða klukkan þrjú að íslenskum tíma. 

Enn er óvíst hvað hafi valdið sprengingunni en Mykhailo Podolyak, einn æðsti ráðgjafi Úkraínuforseta, ýjaði að því að stjórnvöld í Kænugarði væru ábyrg. 

„Krímskaginn, brúin, upphafið. Allt sem er ólöglegt þarf að eyðileggja, öllu sem hefur verið stolið verður að skila aftur til Úkraínu, allt sem tilheyrir rússneska hernáminu verður að ýta út,“ skrifaði Podolyak á Twitter í morgun. 

Ekkert bendir til að um eldflauga- eða loftskeytaárás hafi verið að ræða heldur að frekar hafi árásin verið vel skipulögð og sprengjum mögulega komið fyrir á lestarteinunum. Þá virðist myndband, sem er í dreifingu á Telegram, sýna einhvers konar trukk í miðjunni á eldhafinu en óljóst er hvort bifreiðin hafi innihaldið sprengjuna eða aðeins orðið fyrir henni. 

Brúin er ekki aðeins merkingarþrungin táknmynd um hernám Rússa heldur gríðarlega mikilvæg leið fyrir þá til að flytja vörur til rússneskra hersveita á Krím og suðurhluta Úkraínu. Nú er aðeins ein leið fyrir Rússa til að flytja birgðir til hersveita sinna, milli Krasnodar og Melitopol, sem er í beinni skotlínu fyrir Úkraínuher. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×