Enski boltinn

Spáir því að Arsenal fari létt með Liverpool á sunnudaginn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nú liggur á að Jürgen Klopp finni lausnir á vandamálum Liverpool liðsins og þá einkum í varnarleiknum.
Nú liggur á að Jürgen Klopp finni lausnir á vandamálum Liverpool liðsins og þá einkum í varnarleiknum. Getty/Andrew Powell

Það eru erfiðir tímar hjá Liverpool þessa dagana á meðan Arsenal situr á toppi ensku úrvalsdeildarinnar. Einn sérfræðingur í ensku úrvalsdeildinni er á því að Liverpool liðið muni fara illa út úr leik liðanna um helgina.

Arsenal er með ellefu stiga forskot á Liverpool eins og staðan er í dag og lærisveinar Jürgen Klopp sitja í níunda sæti deildarinnar. Slæmu fréttirnar eru að næstu tveir leikir Liverpool eru á móti tveimur efstu liðunum, Arsenal fyrst og svo Manchester City.

Arsenal hefur unnið níu af tíu fyrstu leikjum tímabilsins í deild og Evrópukeppni og hefur náð 21 stig af 24 mögulegum í ensku úrvalsdeildinni þar sem liðið hefur þegar skorað tuttugu mörk.

Chris Sutton, fyrrum leikmaður í ensku úrvalsdeildinni og sérfræðingur hjá BT Sport, er sannfærður um að Liverpool liðið lendi enn á ný í vandræðum á móti Arsenal í London á sunnudaginn.

„Hlutirnir eru ennþá í ólagi hjá Liverpool. Það reyndi ekki á þá á móti Rangers. Saka og Jesus mun ekki gefa þeim frið í eina mínútu í þessum leik. Arsenal sóknin mun valda þeim miklum vandræðum,“ sagði Chris Sutton þegar hann var beðinn að spá fyrir um úrslit leiksins.

Hann spáði síðan að leikurinn endi með 4-1 sannfærandi sigri Arsenal liðsins.

Það er langt síðan að Arsenal hefur komið inn í leik á móti Liverpool sem sigurstranglegra liðið og það verður því fróðlegt að sjá hvort þessi skoðunarmikla spá rætist á Emirates leikvanginum um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×