Fótbolti

Al­fons varð að labba með stuðnings­mönnum á leikinn við Arsenal

Sindri Sverrisson skrifar
Alfons Sampsted í glímu við Bukayo Saka í Lundúnum í gærkvöld.
Alfons Sampsted í glímu við Bukayo Saka í Lundúnum í gærkvöld. Getty/Vincent Mignott

Alfons Sampsted og félagar hans í Bodö/Glimt skelltu sér í hóp með þúsundum stuðningsmanna sem gengu í átt að Emirates-leikvanginum í Lundúnum í gærkvöld vegna leiks norska liðsins við Arsenal í Sambandsdeildinni.

Rútan sem átti að koma leikmönnum Bodö/Glimt á leikvanginn náði ekki að finna leiðina í gegnum þröngar göturnar í nágrenninu. Að lokum var því sú óvenjulega ákvörðun tekin að leikmenn myndu ganga síðasta spölinn, líkt og annað starfsfólk félagsins með sitt hafurtask.

Eins og sjá má á myndböndum sem Bodö/Glimt birti þá blönduðust leikmenn inn í hóp stuðningsmanna sem gekk í átt að vellinum.

Þúsundir gulklæddra stuðningsmanna Bodö/Glimt settu sterkan svip á leikinn en þrátt fyrir þeirra frábæru frammistöðu varð Bodö að sætta sig við 3-0 tap. 

Eddie Nketiah og Rob Holding komu Arsenal í 2-0 um miðjan fyrri hálfleik og Fábio Vieira bætti við þriðja markinu á 84. mínútu. Alfons var að vanda í byrjunarliði Bodö en var skipt út af undir lokin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×