Fótbolti

Sendi bróður sinn í sitt eigið brúðkaup til að komast á æfingu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Mohamed Buya Turay í leik með Síerra Leóne gegn Fílabeinsströndinni á Afríkumótinu.
Mohamed Buya Turay í leik með Síerra Leóne gegn Fílabeinsströndinni á Afríkumótinu. Ulrik Pedersen/NurPhoto via Getty Images

Knattspyrnumaðurinn Mohamed Buya Turay frá Síerra Leóne verður seint sakaður um að færa ekki fórnir fyrir liðið sitt. Turay sleppti því að mæta í sitt eigið brúðkaup til að komast á æfingu með sænska liðinu Malmö á undirbúningstímabilinu í sumar.

Leikmaðurinn sá þó til þess að brúðurin var ekki ein á brúðkaupsdaginn og fékk bróður sinn til að hlaupa í skarðið fyrir sig.

Ástæða þess að Turay gat ómögulega mætt í sitt eigið brúðkaup var eins og áður segir sú að hann þurfti að mæta á æfingu með sænska liðinu Malmö þann 22. júlí síðastliðinn, degi eftir að brúðkaupið fór fram. Turay náði þó að vera með í brúðkaupsmyndatökunni nokkrum dögum fyrir brúðkaupið sjálft, en segist einfaldlega hafa haft öðrum skyldum að gegna á brúðkaupsdaginn sjálfan.

„Ég mætti ekki í brúðkaupið af því að Malmö bað mig um að mæta aðeins fyrr,“ sagði Turay í samtali við sænska miðilinn Aftonbladet.

„Við létum taka myndir nokkrum dögum áður þannig að það lítur út eins og ég hafi verið þarna, en ég var það ekki. Bróðir minn þurfti að hlaupa í skarðið.“

Turay hefur leikið stærstan hluta atvinnumannaferils síns frá árinu 2013 í Svíþjóð, ef frá eru talin tvö ár í Belgíu og tvö ár í Kína. Hann gekk í raðir Malmö í sumar og hefur leikið fimm deildarleiki fyrir félagið, ásamt því að eiga að baki sex leiki fyrir landslið Síerra Leóne.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×