Erlent

Suður-Kóreu­menn svöruðu fyrir sig en báðust síðan af­sökunar

Bjarki Sigurðsson skrifar
Eldflaugarnar eru sagðar vera svar við eldflaug Norður-Kóreu frá því í gær.
Eldflaugarnar eru sagðar vera svar við eldflaug Norður-Kóreu frá því í gær. Getty

Fjórum eldflaugum var skotið frá Suður-Kóreu seint í gærkvöldi. Talið er að með eldflaugunum hafi Suður-Kóreumenn, ásamt Bandaríkjamönnum, verið að svara fyrir eldflaug sem nágrannar þeirra í norðri skutu í gær yfir Japan. Herinn baðst síðar afsökunar á einni eldflauginni.

Í gær skutu Norður-Kóreumenn eldflaug sem flaug 4.500 kílómetra leið og hrapaði síðan ofan í Kyrrahafið. Eldflaugin flaug yfir Japan en talið er að Norður-Kóreumenn hafi viljað sýna hvers þeir eru megnugir. Skotið átti sér stað innan við sólarhring eftir að Suður-Kórea, Bandaríkin og Japan tilkynntu að ríkin væru að vinna saman í að styrkja bandalag sitt.

Fyrst um sinn svöruðu Bandaríkin og Suður-Kórea fyrir sig með því að æfa hvernig ætti að varpa sprengjum úr flugvél. Síðan í gærkvöldi greindi CNN frá því að fjórum eldflaugarskotum hafi verið skotið frá Suður-Kóreu sem hluti af sameiginlegum æfingum Suður-Kóreu og Bandaríkjanna.

Herinn neyddist til að biðjast afsökunar á einni eldflauganna. Íbúar borgarinnar Gangneung á austurströnd Suður-Kóreu vöknuðu í nótt við sprengingu og sáu eldsvoða. Herinn útskýrði atvikið ekki fyrr en sjö tímum síðar og baðst þá afsökunar.

Flaugin hafði farið á loft en hrapað örskömmu síðar. Herinn kvaðst hafa átt að láta íbúa borgarinnar vita hvað hefði verið á seyði fyrr. Í samtali við BBC segja nokkrir íbúar borgarinnar að þeir hafi átt erfitt með svefn eftir atvikið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×