Fótbolti

Stólpagrín gert að Hart stem steinlá

Sindri Sverrisson skrifar
Joe Hart lá eftir á vellinum og hlúð var að honum.
Joe Hart lá eftir á vellinum og hlúð var að honum. Skjáskot/BBC

Joe Hart, fyrrverandi landsliðsmarkvörður Englands, þótti sýna mikla leikræna tilburði í leik með Celtic gegn Motherwell í skosku úrvalsdeildinni í fótbolta um helgina.

Hart féll til jarðar eftir að hafa rekist utan í Sondre Solholm Johansen, leikmann Motherwell, og lá hreinlega kylliflatur eftir í eigin vítateig, í þann mund sem Kevin van Veen var að fara að taka skot fyrir Motherwell.

Skotið fór hátt yfir markið og í kjölfarið var hugað að Hart sem ekki var lengi að jafna sig, enda verður að segjast sem er að höggið sem hann fékk virtist mjög lítið.

Skoskir fótboltaáhugamenn kepptust við að gera grín að Hart á samfélagsmiðlum. „Joe Hart harkalega rotaður í leiknum í dag á milli Celtic og Motherwell. Þetta er ekki fyrir hjartveika,“ skrifaði til að mynda einn og annar bætti við: „Veit nokkur hve lengi Joe Hart verður frá keppni?“

Aðrir hrifust þó af athæfi hins 35 ára gamla Hart sem virtist vera að reyna að fá aukaspyrnu þegar honum varð ljóst að hann gæti ekki varist skotinu frá Van Veen.

„Þetta er alveg 100 prósent til skammar – en líka svolítil snilld,“ skrifaði einn.

Celtic vann að lokum leikinn 2-1 og er á toppi skosku úrvalsdeildarinnar með 21 stig eftir átta leiki, tveimur stigum á undan Rangers.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×