Fótbolti

Dagný kom West Ham til bjargar og tryggði liðinu sigur í vítaspyrnukeppni

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Dagný Brynjarsdóttir reyndist hetja West Ham í dag.
Dagný Brynjarsdóttir reyndist hetja West Ham í dag. Alex Burstow/Getty Images

Dagný Brynjarsdóttir reyndist hetja West Ham er hún skoraði annað mark liðsins í uppbótartíma gegn London City Lionesses í enska deildarbikarnum í knattspyrnu í dag. Lokatölur 2-2 að venjulegum leiktíma loknum, en gestirnir í West Ham höfðu betur eftir langa vítaspyrnukeppni.

Dagný lék allan leikinn fyrir West Ham í dag, en eftir um klukkutíma leik var liðið lent 2-0 undir. 

Hin franska Viviane Asseyi minnkaði hins vegar muninn fyrir gestina á 65. mínútu áður en Dagný hélt vonum liðsins á lífi með marki á fjórðu mínútu uppbótartíma.

Eftir jafntefli í deildarbikarnum er farið beint í vítaspyrnukeppni og fengu áhorfendur miklu meira en nóg fyrir peninginn sinn þar.

Bæði lið klikkuðu á tveimur spyrnum af fyrstu fimm, en Dagný skoraði úr fimmtu spyrnu West Ham og því þurfti að grípa til bráðabana.

Liðin skoruðu til skiptis, en klikkuðu bæði á sinni áttundu spyrnu og því gekk illa að skera úr um sigurvegara. Það var ekki fyrr en Dagný steig á punktinn í annað sinn í þrettándu spyrnu West Ham að dró til tíðinda. 

Dagný skoraði úr spyrnu sinni, en Lily Agg klikkaði á sinni fyrir heimakonur og sigur West Ham því í höfn. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.