Erlent

Líklegt að Bolsonaro fari sömu leið og Trump

Jóhann Hlíðar Harðarson skrifar
Handklæði með myndum af forsetaframbjóðendunum Lula og Bolsonaro.
Handklæði með myndum af forsetaframbjóðendunum Lula og Bolsonaro. Alexandre Schneider/Getty Images

Allt bendir til þess að brasilíska þjóðin hafni Bolsonaro, forseta Brasilíu, í forsetakosningum sem fram fara í dag. Skoðanakannanir benda til þess að Lula, fyrrverandi forseti landsins, verði forseti á ný. Slæleg frammistaða Bolsonaro í Covid-19 faraldrinum er helsta ástæða þess að honum er spáð tapi.

156 milljónir manna eru á kjörskrá í Brasilíu í dag í þessu 5. fjölmennasta og 5. stærsta landi heims. Landið er tvisvar sinnum stærra en Evrópusambandið og þar búa 210 milljónir manna.

Kosið á öllum vígstöðvum

Kosningarnar í dag eru risavaxnar að burðum. Ekki aðeins fer fram fyrri umferð forsetakosninganna heldur verður líka kosið til fulltrúa- og öldungadeildar þingsins og um leið fara fram fylkisþingkosningar og fylkisstjórakosningar í öllum 27 fylkjum Brasilíu.

Óvinsæll og einangraður forseti

En augu manna beinast eðlilega fyrst og fremst að forsetakosningunum. Jair Bolsonaro freistar þess að ná endurkjöri, en skoðanakannanir benda til þess að það muni ekki takast. Hann þykir ekki hafa verið farsæll, landið sem áður var vinur allra, er í dag nokkuð einangrað á alþjóðavísu, sérstaklega eftir að Donald Trump hvarf af valdastóli í Bandaríkjunum. Nú má segja að helstu og einu bandamenn Bolsonaro séu Pólland og Ungverjaland.

Helsta ástæða óvinsælda hans á alþjóðavísu er að hann hefur efnt það kosningaloforð sitt að styrkja efnahag íbúa á Amazon-svæðinu, það hefur verið gert á kostnað umhverfisins og frumbyggjanna. Helsta ástæða óvinsælda hans heima fyrir er hins vegar afar slæleg frammistaða í Covid19-faraldrinum, en þar dró hann lappirnar, má segja út yfir gröf og dauða, því alls hafa um 700.000 Brasilíumenn týnt lífi í faraldrinum, aðallega, segja fréttaskýrendur, vegna þess hve seint Bolsonaro keypti bóluefni fyrir landsmenn.

Líklegur forseti nýlaus úr fangelsi

Sá sem mun að öllum líkindum skjóta Bolsonaro ref fyrir rass er frambjóðandi Verkamannaflokksins og fyrrverandi forseti landsins, Luiz Inácio Lula da Silva, eða einfaldlega Lula. Hann var forseti Brasilíu frá 2003 til 2011 og er einn vinsælasti stjórnmálamaður í sögu landsins. 8 ára stjórnartíð hans einkenndist af alls kyns velferðarverkefnum í þessu ógurlega misskipta ríki.

Hann var fundinn sekur um peningaþvætti og mútuþægni fyrir 5 árum og dæmdur til tæplega 10 ára fangelsisvistar. Hann afplánaði rétt tæplega 2 ár og var þá leystur úr haldi og sýknaður. Fyrir fjórum árum var meginþema kosninganna spilling og þá hefði Lula ekki átt sér viðreisnar von. Nú blása vindarnir úr annarri átt og helstu kosningamálin eru efnahagsmál, verðbólga og aukin fátækt. Þar virðast kjósendur ætla að skella skuldinni á Bolsonaro og leiða Lula til öndvegis á ný.

Alls eru 7 í framboði til forseta, Lula hefur verið að fá á milli 45 og 49 prósent í síðustu skoðanakönnunum, en Bolsonaro 35 til 40 prósent. Nái enginn meirihluta í dag, verður kosið á milli 2ja efstu, sunnudaginn 30. október.


Tengdar fréttir

Ekki útilokað að Lula sigri strax í fyrstu umferð

Skoðanakönnun sem var birt fyrir síðustu sjónvarpskappræður frambjóðenda í forsetakosningunum í Brasilíu benda til þess að Luiz Inacio Lula da Silva, fyrrverandi forseti, gæti unnið endanlegan sigur strax í fyrstu umferð. Taugar eru þandar fyrir kosningarnar en Jair Bolsonaro forseti hefur ítrekað gefið í skyn að hann muni ekki viðurkenna úrslitin ef hann tapar.

Brasilíumenn vilja úr gulu vegna Bolsonaro

Stuðningsmenn brasilíska landsliðsins eru margir hverjir hættir að klæðast frægri gulri treyju þessa sigursælasta landsliðs heims. Treyjan hafi verið gerð að pólitísku tákni öfgahægri afla í landinu.

Bolsonaro sækist eftir endurkjöri en fylgið dvínar

Jair Bolsonaro forseti Brasilíu hóf kosningabaráttu sína fyrir endurkjöri í gær á kosningafundi Frjálslynda flokksins í Rio de Janeiro. Í ræðu sinni lagði Bolsonaro áherslu á guð, byssur og fjölskylduna. Hann freistar nú þess að höggva á forskot helsta keppinautar síns, sósíalistann og forsetann fyrrverandi Lula da Silva sem nýtur mun meira fylgis.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×