Erlent

Lula mælist með for­skot á Bol­sonaro við upp­haf kosninga­bar­áttunnar

Atli Ísleifsson skrifar
Luiz Inacio Lula da Silva gegndi embætti forseta Brasilíu á árunum 2003 til 2010.
Luiz Inacio Lula da Silva gegndi embætti forseta Brasilíu á árunum 2003 til 2010. AP

Luiz Inacio Lula da Silva, fyrrverandi forseti Brasilíu, mælist í könnun með forskot á sitjandi forseta, Jair Bolsonaro, nú þegar kosningabaráttunni hefur formlega verið hleypt af stokkunum. Fyrri umferð forsetakosninganna fer fram þann 2. október næstkomandi.

Niðurstöður könnunar Ipec, sem kynntar voru í gær, benda til að Lula njóti stuðnings 44 prósent kjósenda, en Bolsonaro 32 prósent.

Dagurinn í dag markar upphaf formlegrar kosningabáráttu þó að bæði Bolsonaro og Lula hafi í raun rekið kosningabaráttur sínar svo mánuðum skiptir.

Jair Bolsonaro tók við embætti forseta Brasilíu í ársbyrjun 2019.EPA

Hinn 67 ára Bolsonaro, sem tók við forsetaembættinu í ársbyrjun 2019, hyggst í dag halda kosningafund í bænum Juiz de Fora, smábæ í suðausturhluta landsins þar sem hann varð fyrir hnífaárás í kosningabaráttunni árið 2018.

Hinn 76 ára Lula, sem gegndi forsetaembætti á árunum 2003 til 2010, mun á sama tíma heimsækja verksmiðju Volkswagen í bænum Sao Bernardo do Campo í héraðinu São Paulo, þar sem hann hóf pólitísk afskipti sín sem stéttarfélagsleiðtogi.

Fyrri umferð forsetakosninganna fer fram þann 2. október, en nái enginn frambjóðandi hreinum meirihluta mun síðari umferð kosninganna fara fram 30. október þar sem kosið er milli þeirra tveggja frambjóðenda sem hlutu flest atkvæði í fyrri umferðinni.


Tengdar fréttir

Bolsonaro sækist eftir endurkjöri en fylgið dvínar

Jair Bolsonaro forseti Brasilíu hóf kosningabaráttu sína fyrir endurkjöri í gær á kosningafundi Frjálslynda flokksins í Rio de Janeiro. Í ræðu sinni lagði Bolsonaro áherslu á guð, byssur og fjölskylduna. Hann freistar nú þess að höggva á forskot helsta keppinautar síns, sósíalistann og forsetann fyrrverandi Lula da Silva sem nýtur mun meira fylgis.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×