Arsenal heldur toppsætinu eftir öruggan sigur gegn erkifjendunum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Leikmenn Arsenal gátu leyft sér að fagna vel og innilega í dag.
Leikmenn Arsenal gátu leyft sér að fagna vel og innilega í dag. Shaun Botterill/Getty Images

Arsenal vann öruggan 3-1 sigur er liðið tók á móti erkifjendum sínum í Tottenham í toppslag ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í dag.

Heimamenn í Arsenal voru mun sterkari frá upphafi til enda í dag og lá það í loftinu strax frá fyrstu mínútu að liðið myndi brjóta ísinn.

Það gerðist loksins á 20. mínútu þegar Thomas Partey skoraði glæislegt mark með hnitmiðuðu skoti fyrir utan teig eftir sendingu frá Ben White og staðan orðin 1-0.

Þrátt fyrir að fá lítið að ógna marki heimamanna tókst Harry Kane þó að jafna metin fyrir Tottenham með marki af vítapunktinum eftir að Gabriel hafði brotið á landa sínum Richarlison innan vítateigs. Kane fór á punktinn og setti boltann á mitt markið, en Aaron Ramsdale skutlaði sér og staðan því 1-1 þegar flautað var til hálfleiks.

Síðari hálfleikur var svo keimlíkur þeim fyrri þar sem heimamenn voru mun sterkari. Það skilaði sér strax á fjórðu mínútu síðari hálfleiksins þegar Gabriel Jesus kom boltanum yfir marklínuna eftir klaufagang Hugo Lloris í marki gestanna og liðsmenn Arsenal því búnir að endurheimta forystu sína.

Ekki batnaði útlitið fyrir liðsmenn Tottenham á 62. mínútu þegar Emerson Royal gerðist sekur um klaufalegt brot á Gabriel Martinelli á vallarhelmingi Arsenal þar sem ekkert var að gerast. Eftir stuttu umhugsun teygði Anthony Taylor, dómari leiksins, sig í brjóstvasann og lyfti rauða spjaldinu á loft. Gestirnir þurftu því að spila seinasta hálftíma leiksins manni færri og útlitið svart.

Heimamenn nýttu sér liðsmuninn um fimm mínútum síðar þegar boltinn barst inn á teig Tottenham þar sem Granit Xhaka var mættur og breytti stöðunni í 3-1, Arsenal í vil.

Við þetta róaðist leikurinn og Arsenal sigldi heim öruggum 3-1 sigri. Sigurinn þýðir að Arsenal trónir enn á toppi ensku úrvalsdeildarinnar, en liðið er nú með 21 stig eftir átta leiki. Þetta var hins vegar fyrsta tap Tottenham á tímabilinu og liðið situr í þriðja sæti deildarinnar með 17 stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira