Enski boltinn

Listinn yfir meidda leikmenn að styttast hjá Liverpool

Hjörvar Ólafsson skrifar
Calvin Ramsay er farinn að æfa af fullum krafti. 
Calvin Ramsay er farinn að æfa af fullum krafti.  Vísir/Getty

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri karlaliðs Liverpool, er að endurheimta nokkra leikmenn sem glímt hafa við meiðsli undanfarnar vikur fyrir komandi átök liðsins. 

Ibrahima Konate, Calvin Ramsay og Curtis Jones eru farnir að æfa af fullum krafti og styttist í að þeir geti farið að spila með Liverpool eftir að hafa glímt við meiðsli síðustu vikurnar. 

Konate og Ramsay, sem kom til Liverpool frá Aberdeen í sumar, hafa ekkert spilað með Livepool á yfirstandandi leiktíð en Jones varð fyrir meiðslum liðsins gegn Manchester City í Samfélagsskildinum í upphafi tímabilsins.  

Jordan Henderson spilaði svo með enska landsliðinu gegn Þýskalandi í Þjóðadeildinni á mánudaginn var en hann er nýkominn til baka eftir að hafa tognað aftan í læri. 

Ekki veitir af jákvæðum tíðindum fyrir Klopp hvað leikhæfa leikmenn varðar en Liverpool mun spila 13 leiki á næstu sex vikum. Næsta verkefni er leikur í ensku úrvalsdeildinni gegn Brighton á Anfield á laugardaginn kemur.  

Andy Robertson, Naby Keita, Alex Oxlade-Chamberlain, Caoimhin Kelleher og Kaide Gordon eru hins vegar enn á meiðslalistanum hjá LIverpool. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×