Erlent

Tvær milljónir án rafmagns og fólk innlyksa eftir Ian

Kjartan Kjartansson skrifar
Íbúi á Delray-strönd á Flórída hjólar fram hjá skemmdum bílum og braki sem fellibylurinn Ian skildi eftir sig.
Íbúi á Delray-strönd á Flórída hjólar fram hjá skemmdum bílum og braki sem fellibylurinn Ian skildi eftir sig. AP/Carline Jean/South Florida Sun-Sentinel

Fjöldi fólks er innlyksa í húsum sínum vegna flóða og tvær milljónir manna eru án rafmagns á suðvestanverðum Flórídaskaga í Bandaríkjunum eftir að fellibylurinn Ian gekk þar yfir í nótt. Fellibylurinn er einn sá öflugasti sem gengið hefur á land í Bandaríkjunum.

Ian var fjórða stigs fellibylur þegar hann gekk á land á Flórída með vindhraða upp á 67 metra á sekúndu. Hann var þá fimmti öflugasti fellibylur í sögu Bandaríkjanna hvað varðar vindhraða. Seint í gærkvöldi hafði dregið úr krafti bylsins sem var þá kominn niður á fyrsta stig. Hann stefnir nú út á Atlantshafið.

Ekki er vitað um mannskaða í Bandaríkjunum af völdum Ians en bátur með flóttamönnum frá Kúbu sökk í óveðrinu austur af Key West í gær. Bandaríska strandgæslan leitaði að 23 og fann þrjár manneskjur. Fjórum öðrum tókst að synda í land á Stock-eyju rétt austan við Key West. Enn er leitað að allt að tuttugu flóttamönnum úr lofti.

Mikil sjávarflóð fylgdu fellibylnum. Flóðvatn fyllti meðal annars neðri hæð bráðamóttöku sjúkrahúss í Port Charlotte á vesturströnd Flórída og vindur reif hluta af þakinu á gjörgæsludeild þess, að sögn AP-fréttastofunnar. Neyddist starfsfólk sjúkrahússins til þess að færa veikustu sjúklinga sína þar sem vatn flæddi inn á gjörgæsludeildina.

Í nágrannabænum Fort Myers bárust lögreglu símtöl frá fólki sem var fast inni í húsum sem flætt hafði inn í. Einnig bárust tilkynningar um áhyggjufullum aðstandendum fólks sem býr á flóðasvæðunum.

Nær öll heimili og fyrirtæki í þremur sýslum misstu rafmagn vegna veðurofsans, alls um tvær milljónir talsins.

Hamförunum er þó ekki lokið á Flórída. Búist er við því að sjávarflóð gæti náð tveimur metrum á norðausturströnd ríkisins í dag. Fellibylsviðvörun er enn í gildi víða. Ríkisstjórar Suður- og Norður-Karólínu, Georgíu og Virginíu hafa allir lýst yfir neyðarástandi ef leifar fellibyljarins skyldu stefna þangað.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×