Ríkisstjórn landsins segir að rafkerfi landsins liggi nú alveg niðri eftir að ekki tókst að kveikja aftur á einu helsta orkuveri landsins, Antonio Guiteras.
Staðfest er að tveir hafa farist af völdum fellibylsins og þá hefur verið tilkynnt um að byggingar hafi víða eyðilagst í veðurofsanum. Áætlað er að um ellefu milljónir manna séu nú án rafmagns.
Veðurspár höfðu gert ráð fyrir að úrkoma gæti náð allt að þrjátíu sentimetrum á sumum svæðum á Kúbu.
Ian er nú þriðja stigs fellibylur þar sem hviður hafa náð allt að 54 metrum á sekúndu, en fellibylurinn nálgast nú Flórída og hefur verið að sækja í sig veðrið á ný. Áætlað er að hann muni ganga á land nærri Tampa á vesturstönd Flórídaskagans næstu nótt og nái svo inn í Georgíu aðfararnótt laugardagsins.
Ron DeSantis, ríkisstjóri Flórída, hefur lýst yfir neyðarástandi í ríkinu vegna komu Ians og hefur hann sett um fimm þúsund þjóðvarðliða í viðbragðsstöðu. Ríkisstjóri Georgíu hefur einnig lýst yfir neyðarástandi og sett um fimm hundruð þjóðvarðliða í viðbragðsstöðu.