Innlent

Hafnar því að hún harmi skipan þjóðminjavarðar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.
Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra. Vísir/vilhelm

Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra segist ekki harma skipan þjóðminjavarðar, líkt og haldið var fram í Fréttablaðinu í morgun. Hins vegar hefði mátt auglýsa stöðuna til að halda sátt um skipanina. Ekki standi til að draga hana til baka.

Fréttablaðið ræddi við Ólöfu Gerði Sigfúsdóttur formann Íslandsdeildar alþjóðaráðs safna í forsíðufrétt sinni  morgun. Ólöf var gestur safnaþings í síðustu viku, þar sem ráðherra tók til máls, en fram kom í frétt Fréttablaðsins að gesti hefði sett hljóða þegar Lilja hefði „tekið U-beygju“ í afstöðu sinni til umdeildrar skipunar Hörpu Þórsdóttur sem þjóðminjavarðar - og sagst harma skipanina. 

Fréttastofa bar þetta undir ráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.

Því var slegið upp í frétt Fréttablaðsins að þú hefðir harmað þessa skipan, er það rétt? 

„Ég harma ekki skipanina sem slíka en við hefðum getað auglýst til að það væri meiri sátt um þessa skipan,“ segir Lilja. 

Og það stendur ekki til að draga þetta til baka? 

„Nei, það stendur ekki til.“ 

Finnst þér að þú hefðir mátt gera þetta [skipanina] öðruvísi, fyrir utan þetta [að auglýsa ekki stöðuna]? 

„Nei, það er skýr heimild í lögum og svona flutningur hefur tíðkast. En hins vegar er það þannig að þetta kom ekki vel við mitt safnafólk. Mér er mjög annt um það og samskipti mín við þau. Ráðherra verður auðvitað að skoða hvað getum við gert til að bæta stöðuna, búa til traust. Við eigum í mjög góðu og uppbyggilegu samtali og samvinnu um næstu skref,“ segir Lilja.

Ráðstafanir til að efla þetta traust hafi meðal annars verið ræddar á áðurnefndum fundi með safnafólki.

„Eitt af því sem ég nefni er skipunartími embættismanna. Hámark í Listasafni Íslands er tíu ár. Mér finnst koma vel til greina að skoða þetta fyrir Þjóðminjasafnið og Náttúruminjasafnið. Að samræma skipunartíma. Þá held ég að þessi óánægja hefði ekki verið svona mikil,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.


Tengdar fréttir

Hafa ekkert heyrt frá Lilju

Félag fornleifafræðinga hefur hvorki heyrt frá Lilju Alfreðsdóttur menningarmálaráðherra né umboðsmanni Alþingis vegna kvörtun þeirra á skipun Hörpu Þórsdóttur í embætti þjóðminjavarðar. Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.