Enski boltinn

Cantona stakk upp á því að verða for­seti fót­bolta­mála hjá Manchester United

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Cantona er og verður alltaf í guðatölu á Old Trafford.
Cantona er og verður alltaf í guðatölu á Old Trafford. vísir/getty

Goðsögnin Eric Cantona var óvænt í ítarlegu viðtali á íþróttamiðlinum The Athletic. Cantona, sem er engum líkur, fór um víðan völl í viðtalinu sem tekið var í Casablanca, Marokkó. Þar kemur Cantona meðal annars inn á það þegar hann hitti forráðamenn Manchester United og stakk upp á því að hann yrði „forseti fótboltamála“ hjá félaginu.

Hinn 56 ára gamli Cantona lék með Manchester United frá 1992 til 1997. „King Eric“ eins og hann hefur oft verið kallaður meðal stuðningsfólk Man Utd var gríðarlega sigursæll á meðan hann lék listir sínar á Old Trafford.

Eftir að hann hætti í knattspyrnu aðeins þrítugur að aldri hefur Cantona gert ýmislegt. Í viðtalinu fer Cantona yfir af hverju hann er ekki sendiherra hjá Man United en hann viðurkenndi þó að nýlega hefði hann boðið félaginu krafta sína.

„Á síðasta ári stakk ég upp á því að breyta aðeins til,“ sagði Cantona. Hann hafði rætt þetta við Sir Alex Ferguson, sinn gamla stjóra, og sá studdi Cantona í ákvörðun sinni. Frakkinn vildi nefnilega verða „forseti fótboltamála“ hjá Manchester United. Reikna má með að starfið væri svipað og það sem „yfirmaður fótboltamála“ sinnir en þar sem um er að ræða Cantona þá vildi hann vera titlaður forseti.

„Ég talaði við Ed Woodward, hann er frábær þegar kemur að markaðssetningu en ekki þegar kemur að fótbolta. Þú hefðir haft framkvæmdastjóra, markaðsstjóra og forseta fótboltamála. Félagið samþykkti ekki tilboð mitt, það vildi mig ekki.“

Cantona vann ensku úrvalsdeildina fjórum sinnum á sínum fimm árum hjá Manchester United. Einnig lyfti hann enska FA bikarnum tvívegis. Alls lék hann 45 A-landsleiki fyrir Frakkland og skoraði í þeim 20 mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×