Fótbolti

Arnar vill ekki að leikurinn í kvöld kosti Ísland tvo milljarða

Sindri Sverrisson skrifar
Birkir Bjarnason þekkir hvað þarf til að komast á EM.
Birkir Bjarnason þekkir hvað þarf til að komast á EM. Getty/Robbie Jay Barratt

Ef að Arnar Þór Viðarsson eða leikmenn íslenska karlalandsliðsins í fótbolta kysu að gefa bara skít í leikinn við Albaníu í Þjóðadeildinni í kvöld eru ágætar líkur á að sú afstaða kæmi illilega í hausinn á þeim að ári liðnu. Sigur í kvöld gæti nefnilega opnað varaleið inn á EM í Þýskalandi 2024.

Ísland getur ekki lengur unnið sinn riðil í B-deild Þjóðadeildarinnar því Ísrael tryggði sér efsta sætið um helgina með sigri á Albaníu. Þó gæti verið til býsna mikils að vinna í kvöld.

Sigur gegn Albaníu ætti nefnilega að svo gott sem tryggja Íslandi möguleika á fjögurra liða umspili um sæti á EM, þurfi íslenska liðið á því að halda að ári liðnu. 

Vandamálið er að það verður ekki skýrt fyrr en eftir undankeppni EM á næsta ári hvort leikurinn í kvöld skiptir máli en það bendir býsna margt til þess.

Arnar er vel meðvitaður um þetta eins og fram kom í viðtali við hann um helgina, og þess vegna hafði hann engan áhuga á að lána leikmenn sína niður í U-21 landsliðið sem spilar í umspili við Tékka í dag um sæti á EM.

Allt þar til í gærkvöldi var jafnframt möguleiki á að sigur í kvöld myndi skila Íslandi í 2. styrkleikaflokk fyrir dráttinn í undankeppni EM, en eftir sigur Finnlands í gær er ljóst að liðið verður í 3. flokki sem gerir verkefnið að komast á EM vitaskuld strax erfiðara.

Markmið Arnars og íslenska liðsins er að sjálfsögðu að komast á EM 2024. Kannski er erfitt að ímynda sér núna „bláa hafið“ streyma um götur Berlínar en sigur í kvöld gæti á endanum greitt leiðina þangað. 

Þátttöku á EM fylgir jafnframt verðlaunafé upp á vel á annan milljarð íslenskra króna (að minnsta kosti má reikna með meira en þeim 1,4 milljarði sem fékkst fyrir það eitt að komast á EM 2020, og við bætist fé fyrir jafntefli og sigra á mótinu) svona til áminningar um mikilvægi mótsins fyrir íslenskan fótbolta eins og EM 2016 og HM 2018 voru.

Einfalda leiðin að komast beint á EM

Einfalda leiðin til að komast á EM er að lenda í 1. eða 2. sæti í riðlinum sem Ísland dregst í 9. október, í undankeppninni sem öll verður leikin á næsta ári.

En ef Ísland kemst ekki beint á EM úr undankeppninni þarf liðið að stóla á umspilið sem fram fer í mars 2024. Leiðin í það umspil liggur í gegnum Þjóðadeildina.

Dæmi um mögulega leið Íslands í umspilið

Tuttugu lið komast á EM í gegnum undankeppnina, og Þýskaland fær öruggt sæti sem gestgjafi. Eftir standa þá þrjú laus sæti sem spilað er um í þremur fjögurra liða umspilum; einu fyrir A-deild Þjóðadeildar, einu fyrir B-deild (deildina sem Ísland er í) og einu fyrir C-deild.

Liðin sem vinna sinn riðil í A- B- og C-deild Þjóðadeildar eiga öruggt sæti í umspili. Ef einhver þeirra verða hins vegar búin að vinna sig inn á EM í gegnum undankeppnina, sem mun gerast, þá færist sæti þeirra til næstu þjóða í viðkomandi deild (reyndar fær efsta lið D-deildar fyrsta aukasætið sem í boði er í umspili en svo er farið efst á lista).

Líklega er best að skoða dæmi um það hvernig þetta gæti spilast á næsta ári. Í dæminu hér að neðan kemst Ísland í umspil en Albanía ekki, og það er auðvelt að sjá hversu mikið öruggara væri fyrir Ísland að lenda í 2. sæti en 3. sæti í sínum riðli, í þessu sambandi.

Ef að Ísland kemst ekki beint á EM í gegnum undankeppnina mega sem sagt samtals að hámarki sex lið sem enda fyrir ofan Ísland í Þjóðadeildinni missa af því að komast beint á EM, til að Ísland fái að fara í umspil. Líkurnar á því eru meiri ef Ísland missir ekki fjögur lið upp fyrir sig með tapi í kvöld.

Umspil enn möguleiki þrátt fyrir tap

Það má reikna með því að flest, ef ekki öll, liðin úr A-deild Þjóðadeildar verði í hópi þeirra tuttugu liða sem komast beint á EM í gegnum undankeppnina, og nokkur lið úr B-deildinni. Þá yrði bætt í „A-umspilið“ og „B-umspilið“ eftir röðun í Þjóðadeildinni og Ísland gæti grætt á því.

Þess vegna er mjög líklegt að ef Ísland tapar ekki gegn Albaníu í kvöld, og endar þar með á bilinu 21.-24. sæti í heildarkeppni Þjóðadeildarinnar, muni liðið komast í umspil þurfi það á því að halda. 

Líkurnar eru talsvert minni verði Ísland á bilinu 25.-28. sæti en þó er ekki útilokað að það dygði (það í nákvæmlega hvaða sæti Ísland endar veltur á samanburði við lið í 2. eða 3. sæti annarra riðla í B-deild, þar sem úrslit gegn neðsta liði eru strokuð út). 

Ísland græðir á því að vera í riðli með Rússlandi, sem dæmt var úr keppni, og getur því ekki endað neðar en í 28. sæti í Þjóðadeildinni, og ekki fallið niður í C-deild.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.