Enska knattspyrnusambandið kærði Ronaldo í síðustu viku fyrir að slá síma úr hendi Jacobs Harding, ungs stuðningsmanns Everton, í apríl síðastliðnum. Sími hans eyðilagðist og Harding marðist á hendi.
Móðir drengsins, Sarah Kelly, hvetur enska knattspyrnusambandið til að refsa Ronaldo með viðeigandi hætti.
„Vonandi fær hann loksins rétta refsingu. Hann getur ekki haldið áfram að komast upp með þetta. Framkoma hans er óásættanleg,“ sagði Kelly.
„Það hefði átt að refsa honum fyrir sex mánuðum. Sonur minn talar um þetta á hverjum einasta degi. Hann hefur ekki enn fengið símann sinn aftur.“
Manchester United tapaði umræddum leik fyrir Everton, 1-0. Eftir leikinn á Goodison Park missti Ronaldo stjórn á skapi sínu og sló símann úr hendi Hardings. Hann baðst afsökunar á framkomu sinni á samfélagsmiðlum og bauð Harding á leik á Old Trafford til að bæta honum tjónið.