Fótbolti

„Per­sónu­lega fannst mér frammi­staðan vera skref í rétta átt“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gareth Southgate punktar hjá sér að England er nú fallið úr A-deild Þjóðadeildarinnar.
Gareth Southgate punktar hjá sér að England er nú fallið úr A-deild Þjóðadeildarinnar. Michael Regan/Getty Images

„Það er erfitt fyrir að vera of gagnrýninn á frammistöðuna. Við vorum meira með boltann, áttum fleiri skot og fleiri skot á markið sjálft,“ sagði Gareth Southgate, landsliðseinvaldur Englands, eftir 1-0 tap Englands í Mílanó á Ítalíu. Tapið þýðir að England er fallið niður í B-deild Þjóðadeildarinnar.

Enn og aftur tekst Englandi ekki að skora en liðið hefur aðeins skorað eitt mark í fimm leikjum í Þjóðadeildinni til þessa. Það gerði Harry Kane úr vítaspyrnu í 1-1 jafntefli gegn Þýskalandi en ásamt San Marínó er England eina liðið í allri Þjóðadeildinni sem ekki hefur skorað úr opnum leik til þessa.

Þrátt fyrir dapran sóknarleik, bæði í kvöld og í Þjóðadeildinni í heild sinni, þá var Southgate nokkuð brattur í viðtali eftir leik.

„Lungann úr leiknum þá spiluðum við vel. Við brugðumst hins vegar varnarlega á ögurstundu. Á síðasta þriðjung vallarins voru augnablik sem hefðum þurft að nýta betur en okkur skorti gæði í þeim atvikum,“ sagði þjálfarinn um leik kvöldsins.

„Á endanum bregst fólk við úrslitum en mér fannst margt jákvætt í leik okkar í kvöld. Það voru margar góðar einstaklingsframmistöður.“

„Persónulega fannst mér frammistaðan vera skref í rétta átt en ég skil fullkomlega að þar sem úrslitin féllu ekki með okkur þá mun fólk ekki vera sammála mér hvað það varðar,“ sagði Southgate að endingu.

Það styttist í HM í Katar og sem stendur þarf Southgate að finna lausn á fjölda vandamála. Hann stillti upp nokkuð sóknarsinnuðu 4-2-3-1 leikkerfi í kvöld og þrátt fyrir fjölda skota þá ógnuðu Englendingar marki Gianluigi Donnarumma ekki af neinu viti. 

England leikur í B-riðli á HM ásamt Íran, Wales og Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×